Söfnuðu 400 þúsund krónum í minningarsjóð Ölla
Unglingaráð Fjörheima safnaði samtals 400.000 krónum til styrktar Minningarsjóðs Ölla með því að halda Góðgerðartónleika í Hljómahöll í síðustu viku. Unglingaráðið saman stendur af ungum og öflugum ungmennum í 8.–10. bekk í Reykjanesbæ en hlutverk þeirra er að skipuleggja dagskrá, halda viðburði og taka þátt í ýmsum öðrum störfum sem snerta félagsmiðstöðina.
Þeir tónlistarmenn sem stigu á svið voru Valdimar Guðmundsson ásamt Ásgeiri Aðalsteinssyni gítarleikara, Már Gunnarsson, Ísold Wilberg, hljómsveitin Demo, Frid og Sesselja Ósk Stefánsdóttir.
Að tónleikum loknum var aðstandendum minningarsjóðsins afhentur styrkurinn og tilkynnt var að tónleikar sem þessir verði árlegir héðan í frá. Minningarsjóður Ölla styrkir börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á tónleikunum. Tóndæmi frá þeim verður í Suðurnesjamagasíni vikunnar.