Söfnuðu 200.000 kr. fyrir Barnaspítala Hringsins
Erna Sif Gunnarsdóttir og Þorvaldur Hafþór Sigurjónsson, íbúar í Innri Njarðvík, eiga 15 mánaða gamla dóttur, Guðnýju Ósk, sem er með ónæmisgalla, fæðuofnæmi og mjólkuróþol. Guðný Ósk hefur þurft að dvelja töluvert á Barnaspítalanum vegna veikinda sinna.
Sem þakklætisvott við þá þjónustu sem þau hafa fengið á spítalanum héldu þau styrktarveislu sl. laugardag. Fjárframlögin renna óskipt til Barnaspítala Hringsins og barna með ónæmisgalla. „Við áttum tveggja ára brúðkaupsafmæli og ákváðum í tilefni þess að bjóða til styrktarveislu,“ sagði Erna Sif.
Vinum og ættingjum var boðið til veislunnar í stað gjafa voru frjáls fjárframlög lögð í söfnunarbauk sem Guðný Ósk afhendir Barnaspítalanum um miðjan október.
Að sögn Ernu Sifjar þá gekk veislan vel þrátt fyrir að margir þurftu því miður að afboða vegna veikinda eða fjarveru erlendis. „Allir voru tilbúnir til að styrkja okkur og er upphæðin núna tæp 200.000 kr. sem ég er hæst ánægð með,“ segir Erna Sif sem reiknar með að upphæðin verði aðeins hærri.“
„Við ákváðum að stofna þessa söfnun vegna þess að rannsóknir á sjúkdómnum eru gerðar erlendis og er bið úr hverri rannsókn 4 til 6 vikur sem er hræðileg bið. Nú á að hefja rannsókni hér heima til að minnka þessa bið,“ segir Erna Sif.
Ónæmissjúkdómnum fylgja lyfjameðferðir á 3ja vikna fresti og taka þær 4-6 klst. Nú er stefnt á heimagjafir til að draga úr spítalaferðum. „Öllum líður miklu betur heima í sínu umhverfi en allt þetta kostar peninga og langar okkur að hjálpa til að koma þessu fyrr af stað. Það er algjörar hetjur þarna upp á barnaspítala og eiga skilið orðu fyrir sína vinnu,“ segir Erna Sif að lokum.
Reikningsnúmer söfnunarinnar er 1109-05-412400 kt 261085-2409
„Þessi söfnun er til heiðurs Guðnýjar Óskar, hún er að safna þessu fyrir sig og vini sína með ónæmisgalla.“ sagði Erna Sif en hún fjölskyldan þakka kærlega styrktaraðilum veislunnar: Bónus, Party búðin og Glerblástur.