Söfnin í Reykjanesbæ bjóða gesti velkomna á safnadaginn
Söfnin í Reykjanesbæ bjóða gesti velkomna í tilefni íslenska safnadagsins 7. júlí 2013. Margt er í boði í bæjarfélaginu sem fólk getur sótt í tilefni dagsins.
Í Listasafni Reykjanesbæjar er sýningin „Við geigvænan mar“, Reykjanes og myndlistin. Hún var opnuð 2. júní sl. Þar má sjá Reykjanesskagann í meðförum nokkurra listamanna eins og Eggert Guðmundsson, Jóhannes Geir, Ásgrímur Jónsson, Eyjólfyr Eyfells og Húbert Nói, svo nokkrir séu nefndir.
Í Byggðasafni Reykjanesbæjar er sýningin: „Á vertíð, þyrping verður að þorpi“, þar má sjá nokkur stef úr sögu svæðisins eins og sögubrot af vermönnum sem komu gangandi á vetrarvertíð sem stóð í um 3 mánuði ár hvert um aldir, þéttbýlinu við sjávarsíðuna sem óx fiskur um hrygg á 19. öld, bárujárnsklædd timburhús sem tóku við af torfhúsunum og brot af byggingum dönsku verslunarinnar í bakgrunni er hafið sem ávallt hefur verið ríkur þáttur í sögu þessa svæðis.
Í Duushúsunum má einnig sjá fjölda bátalíkana, mynda og minja frá langri sögu sjávarútvegs á svæðinu og landsins alls. Í nágrenninu bíður Skessan í helli sínum spennt að fá góða gesti.
Í Víkingaheimum eru áhugaverðar sýningar, eins og víkingaskipið Íslendingur, siglingar Norrænna manna á víkingatíð, elstu minjar um búsetu sem fundist hefur á Suðurnesjum auk þess sem gestir geta kynnst heimi goðanna. Í Rammahúsi taka slökkviliðsmenn á móti gestum, bílar verða til
sýnis útivið en innan dyra má sjá merka sögu slökkviliða á Íslandi.
Rammahúsið liggur við Reykjanesbrautina merkt dyggilega með slökkvibíl, Víkingaheimar eru fjær en á milli þeirra er Stekkjarkot sem er endurgert kot frá síðasta skeiði íslenska torfbæjarins og rétt við Víkingaheima er landnámsdýragarðurinn.
Allir þessir staðir eru opnir frá kl 13 til 17 nema Víkingaheimar sem eru opnir frá 13 til 18. Aðgangseyrir er að Víkingaheimum og sýningum í Rammahúsi. Ókeypis aðgangur er ávallt að Duushúsum, Skessunni, Stekkjarkoti og landnámsdýragarðinum.