Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Snorri Ásmundsson sýnir í Suðsuðvestri
Fimmtudagur 29. mars 2007 kl. 10:03

Snorri Ásmundsson sýnir í Suðsuðvestri

Snorri Ásmundsson opnar sýninguna “Ég og vinnustofan mín” (sjálfsmynd) / “Me and my studio” (Selfportrait) í sýningarýminu Suðsuðvestur í Reykjanesbæ laugardaginn 31. mars kl. 17.

Snorri er fæddur á Akureyri árið 1966 og hefur verið í eldlínu myndlistarsköpunar sem myndlistarmaður og sem einn af stjórnendum Kling & Bang Gallerís og Klink og Bank. Snorri er kunnur fyrir að fara ótroðnar slóðir í list sinni og hefur undanfarin ár átt samræður við samfélagið með gjörningum sínum. Sýningin í Suðsuðvestri samanstendur af sjálfsmynd, teikningum af listunnendum og myndbandi sem er tekið upp í vinnustofu Snorra þar sem fylgst er með störfum hans. Snorri er með vinnustofu í Álafosskvosinni og hefur verið
með undanfarin 2 ár. Um verkið segir Snorri: “Ég þekki marga myndlistamenn og hef stundum hugleitt hvað þeir aðhafast á vinnustofum sínum.
Í myndbandinu sem er einhvers konar sjálfsmynd sýni ég hinar ýmsu aðfarir sem eiga sér stað á vinnustofu minni. það gerist margt á vinnustofunni og ferlið við að búa til myndlist er afrakstur af hugmyndum og upplifunum. Fólk almennt gerir sér oft
ekki grein fyrir aðdragandanum af verkum listamanna. Hann er auðvitað eins fjölbreyttur og listamenn eru margir og hugljómarnir að verkum koma stundum við óvenjulegar aðstæður.

Verkin verða ekki til á færibandi heldur er heilmikið ferli og undirbúningsvinna á bak við þau, jafnvel þó afraksturinn láti lítið yfir sér við fyrstu sýn. Mér þótti því tilvalið að gera verk um þetta. Þetta er verk um gerð verks og um leið heimild eða sýnishorn af því sem fer fram á vinnustofunni.”

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Suðsuðvestur er til húsa á Hafnargötu 22, 230 Reykjanesbæ.


Sýningin er opin föstudaga frá kl.16:00 - 18:00 og laugardaga og sunnudaga frá kl. 14:00 - 17:30 og eftir samkomulagi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024