Snjóstríði afstýrt snögglega
Ekkert varð úr snjóstríði sem nemendur úr 4. SH í Njarðvíkurskóla voru að undirbúa í morgun. Nemendurnir voru búnir að hlaða mikið snjóvirki á bílaplaninu fyrir utan Sparisjóðinn í Njarðvík og hugðust taka þar á móti nemendum úr öðrum fjórða bekk. Spenningurinn var mikill. „Við rústum þessu,“ sagði einn guttinn þegar Víkurfréttir hættu sér inn á átakasvæðið. Það var jú alvöru snjóstríð í uppsiglingu þar sem snjóbolta átti að nota sem vopn. Nemendurnir voru einnig búnir að koma sér upp þungavopnum, s.s. stórum snjókögglum sem átti að nota til að hrinda árás á virkið.
Spennan í algleymi og hróp á milli bekkjanna. „Komiði ef þið þorið!“ Vöðvarnir spenntir til hins ýtrasta. Allt í einu heyrðist skaðræðisöskur: „Gangavörður – gangavörður,“ og þar með tvístraðist hópurinn. Þegar einn guttanna var spurður hvers vegna hætt hafi verið við stríðið svaraði hann: „Við megum ekki vera hérna,“ og með það hljóp hann ásamt hópnum í átt til skólans og það voru allir vinir að sjálfsögðu. En snjóstríðið bíður betri tíma. Og kannski komast friðargæsluliðar skólans ekki að því hvar fyrirhugað átakasvæði verður.
VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Efri mynd: Við öllu búnir í virkinu. Neðri mynd: Gangavörðurinn mættur og hópurinn tvístrast.