Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Snjóbrettið eftirminnilegasta jólagjöfin
Mánudagur 24. desember 2018 kl. 07:00

Snjóbrettið eftirminnilegasta jólagjöfin

Ásgeir Elvar Garðarsson hjá Bílaleigunni Geysi segir að eftirminnilegasta jólagjöfin sé fyrsta snjóbrettið sem hann fékk þegar hann var 12 ára. Hann segir desember sé skemmtilegasti mánuður ársins þó honum sé illa við jólalög. Hér svarar Ásgeir jólaspurningum VF:

Ertu mikið jólabarn?
Já og nei. Mér er mjög illa við flest jólalög og kann illa við að byrja jólin of snemma. Ég er hinsvegar mikill áhugamaður um jólaseríur, jólatré, jólapakka og jólasnjó.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?Þegar ég var lítill fór ég alltaf að dreifa jólakortum fyrir foreldra mína með systkinum föður míns. Eflaust eitthvað sem þau voru neydd til gera en fyrir mér var þetta mesta skemmtun.

Hvað er ómissandi á jólum?
Aðfangadagsrúnnturinn um Keflavík með systkinum mínum. Þar sækjum við pakka hjá ömmum og öfum og hittum fjölskyldurnar okkar fyrir kvöldið.

Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?
Desember er orðinn einn skemmtilegasti mánuður ársins hjá mér. Það líður ekki sú helgi sem er óplönuð með vinum eða fjölskyldu og þær samverustundir standa upp úr.

Bakar þú smákökur fyrir jólin?
Nei en það er annar aðili á heimilinu sem er mjög duglegur í þeirri deild.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Jólagjafalistinn er alltaf tæmdur mjög snemma en ég á það til að bæta við gjöfum þegar jólin nálgast og kaupi síðustu gjöfina yfirleitt á Þorláksmessu.

Hvenær setjið þið upp jólatré?
Við setjum yfirleitt upp jólatré á fyrsta eða öðrum í aðventunni, á sama tíma og við skreytum húsið.

Eftirminnilegasta jólagjöfin?
Mér þykir mjög vænt um allar þær gjafir sem ég hef fengið en þegar ég hugsa langt til baka stendur uppúr fyrsta snjóbrettið mitt sem ég fékk þegar ég var 12 ára. Það var ekki bara draumurinn minn á þeim tíma heldur mótaði það einnig uppáhalds áhugamálið mitt til dagsins í dag.

Hvenær eru jólin komin hjá þér?
Jólin koma síðasta virka dag fyrir aðfangadag, þetta árið verður það 21. desember. Skrifið það hjá ykkur.