Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

„Sniðugt fyrir skipulagsperra“
Föstudagur 11. nóvember 2016 kl. 11:47

„Sniðugt fyrir skipulagsperra“

Gunnlaug Guðmundsdóttir, eða Gulla eins og flestir þekkja hana, er 26 ára Garðbúi en er búsett í Reykjanesbæ. Hún starfar hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli en þess á milli má finna hana í Sporthúsinu í Reykjanesbæ. Gulla hefur mjög mikinn áhuga á heilsu almennt en henni finnst líka gaman að ferðast, vera í kringum skemmtilegt fólk og eyða tíma með fjölskyldunni. Gulla segir okkur hér frá fimm sniðugum öppum sem hún notar í daglegu lífi.
 
 
Spotify: Flest allir ættu að kannst við þetta. Þarna ertu með flest alla tónlist. Fyrir mig er þetta algjör snilld þar sem ég er ekki týpan sem nenni að setja tónlist inn á símann minn og útbúa sér playlista fyrir hitt og þetta. Þarna geturðu til dæmis valið hvernig tónlist þú vilt hlusta á bara eftir því hvernig þér líður eða hvað þú ert að gera. Þarft ekkert að útbúa lista, bara ýta á „play!“  Svo er hægt að sjá „playlista“ frá öðrum og hlusta á þá og líka útbúa slíkan sjálf/ur. Nota þetta á hverjum degi.
 
Strimillinn: Þessu appi kynntist ég fyrir ekki svo löngu og þyrfti reyndar að vera duglegri við að nota. En þetta er sniðugt fyrir skipulagsperra og þá sem vilja halda vel um bókhaldið sitt. Þarna þarftu bara að skanna inn kvittunina úr búðarferðinni þinni og appið heldur utan um innkaupin þín. Hægt er að sjá hvort einhver tiltekin vara hefur hækkað eða lækkað. Svo er líka hægt að leita að einhverju sérstöku og sjá þá hvar það er til og hvað það kostar! Finnst þetta alveg brilliant og eitthvað sem allir geta notað.
 
MyFitnesspal: Þetta er örugglega appið sem ég nota hvað mest. Þar sem ég hef mikinn áhuga á mataræði og hreyfingu, þá er þetta algjör snilld fyrir mig. Þarna get ég skráð allt sem ég borða og haft góða yfirsýn yfir næringuna mína yfir daginn. Í þessu appi er að finna allan mat, hvort sem hann er keyptur á Íslandi eða ekki og ef hann er ekki í appinu þá skráir maður hann inn sjálfur! Svo er mesta snilldin við þetta að þú þarft ekki endilega að leita að jógúrtinu eða drykknum sem þú vilt setja inn heldur skannar þú bara strikamerkið! Auðvelt og þægilegt.
 
HIITTimer: Enn eitt heilsuappið já, en eru ekki allir að koma sér í kjólinn fyrir jólin? Þetta nota ég á æfingum og er svona „tabata interval“ app. Þarna er hægt að velja nokkrar útgáfur af tíma til að nota, sem sagt hversu lengi þú vilt vinna og svo hvíla á móti. Nær púlsinum vel upp og hægt að nota á marga mismunandi vegu. Nota þetta oftast í spretti á hlaupabrettinu, svona til dæmis.
 
Wodify: Þetta app er ekki fyrir alla en ég nota þetta daglega. Þetta er app sem er notað fyrir þá sem eru að æfa crossfit. Þarna fáum við að sjá æfingu dagsins, skráum okkur í tíma og skráum líka það sem við gerðum á æfingunni. Þannig að þetta app heldur utan um allt það sem ég hef gert á crossfit æfingum og ég get alltaf flett því upp. Uppsetningin á þessu appi er frábær og auðveld og alltaf gaman að sjá líka ef fólk bætir sig. Um að gera að skrá sig í crossfit til að kynnast þessu appi.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024