Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Smíðar penna úr viði
Sunnudagur 26. júní 2016 kl. 06:00

Smíðar penna úr viði

- Fékk óvænt græjur til að smíða penna með notuðum rennibekk

Finnbogi Unnsteinn Gunnlaugsson, sem búsettur er í Grindavík, keypti sér rennibekk í Hafnarfirði fyrir áratug síðan. Rennibekknum fylgdi poki með ýmsu dóti, meðal annars græjum til að búa til penna. Hann prufaði græjurnar og síðan var ekki aftur snúið og hefur Finnbogi smíðað marga penna, flesta úr viði en einnig úr hornum af nautum og hreindýrum. Þar sem pennarnir eru gerðir fríhendis eru engir tveir eins.

Finnbogi segir best að nota harðan, þéttan og mjög vel þurran við þegar verið er að smíða penna. Efnið er viðkvæmt og þegar rifa kemur í það dettur það í sundur. Efniviðurinn kemur úr görðum hér á landi en líka frá útlöndum. „Ég hef verið að fá við frá Ameríku, Ástralíu, Brasilíu og víðar að,“ segir hann. Harðasti viðurinn á Íslandi er að sögn Finnboga reyniviður, birki og gullregn og er sá viður nógu þéttur í pennasmíðina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikilvægt að viðurinn þorni vel
Eftir að Finnbogi fær viðinn fer hann í þurrkun og tekur hún mislangan tíma eftir því hve stórir kubbarnir eru. Viðurinn er sagaður niður í einingar og látinn þorna. Svo er hann sagaður niður í enn minni einingar og þannig koll af kolli þar til efnið er komið niður í rétta stærð fyrir penna. Stundum lokar Finnbogi endunum með kertavaxi svo þeir rifni síður. „Þegar viðurinn er orðinn nógu þurr bora ég í efnið og set túbur inn í. Svo þarf að ganga úr skugga um að stykkin passi saman þegar pennanum er smellt saman. Svo er bara rennt,“ segir hann. Pennarnir eru svo hertir að utan með lími og öðru svo þeir verði glansandi og haldi glansinum. Búnaðurinn inn í pennana kemur alla leið frá Ástralíu og segir Finnbogi það vera hagkvæmasta kostinn.

Finnbogi er nú aðeins byrjaður að smíða penna úr hreindýrahornum og nautgripahornum. Hann segir töluvert erfiðara að smíða úr nautgripahornum en úr viði. „Þau eru með árhring eins og viðurinn en lausari. Þau geta því losnað í sundur og tætst upp.“ Finnbogi segir mjög gott og skemmtilegt að vinna með hreindýrahorn en að þau séu hörð. Finnbogi sækir handverksmarkaði og hefur gaman af því að selja með öðru handverksfólki og segir það einkar skemmtilegt fólk.