Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Smári Klári fer sóló
„13 ár eru síðan fyrsta sólóverkefnið mitt kom út en það var lagið Straight down, ég ætla að taka þetta allt saman á næsta ári“
Þriðjudagur 21. október 2014 kl. 09:17

Smári Klári fer sóló

Á yfir hundrað lög á lager

Smári Guðmundsson, oftast kenndur við hljómsveitina Klassart, hyggst gefa út sólóplötu með efni sem hann hefur verið að semja undanfarin 13 ár eða svo. Hann sendi frá sér nýtt lag á dögunum sem nefnist Sandvík en hann ætlar sér að bæta nokkrum nýjum lögum við á komandi plötu. „Sandvík er hús í Sandgerði þar sem afi minn og amma bjuggu og pabbi ólst upp, þar eru tengslin. Þórður afi í Sandvík vann lengi mest í Kaupfélagi Suðurnesja sem var á Hafnargötu 62,“ segir Smári. Hann segist hafa verið með aðra löppina í Sandgerði síðasta mánuðinn sem hafi kallað upp ákveðna fortíðarþrá í honum sem varð til þess að hann fann þörf fyrir því að koma þessu lagi frá sér.

Smári hefur verið iðinn við lagasmíðar fyrir utan þau lög sem rata á plötur Klassart, en þær eru nú orðnar þjár talsins. Gítarleikarinn snjalli segist eiga yfir 100 lög á lager en heyra má brot af þeim flestum hér á soundcloud.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég íhugaði að gera þetta að Klassart lagi fyrst þegar ég samdi það. Við Fríða systir reyndum nokkrar laglínur og texta við það en það virkaði ekki, stundum er það bara þannig, sum lög eiga bara að vera instrúmental. Ég er náttúrulega svo ótrúlega heppinn að fá að vinna með og semja fyrir eina af bestu söngkonum Íslands, það gefur manni auka kraft. Það er svo gott og mikilvægt finnst mér að geta unnið með fólki sem gefur svona mikla jákvæða orku frá sér eins og Fríða gerir, sérstaklega í þessum bransa,“ segir Smári um systur sína. Lagið má heyra hér að neðan.

Það sem er á döfinni hjá Klassart á næstunni er Airwaves sem er dagana 5-9. nóv. Þar mun hljómsveitin spila á staðnum Frederiksen á föstudagskvöldinu kl. 00:20. Einnig munu Sandgerðingarnir spila á nokkrum off-venue tónleikum í kringum hátíðina og má þar nefna Kaffihús Vesturbæjar sem var að opna, en þar starfar söngkonan Fríða.