Slysaðist í hjálparstarf eftir flakk og framavonir
Sandgerðingurinn Guðrún Sveinsdóttir framkvæmdastjóri ABC hjálparstarfs á Íslandi.
Sandgerðingurinn Guðrún Sveinsdóttir er nýráðinn framkvæmdastjóri ABC hjálparstarfs á Íslandi. Hún segist hafa endað í starfinu fyrir algera tilviljun eftir flakk erlendis en spennandi tímar eru framundan hjá samtökunum að hennar sögn. Guðrún er fædd og uppalin í Sandgerði fram til 16 ára aldurs. Hún fór svo í Menntaskólannn að Laugavatni. „Fjölskyldan mín er á Suðurnesjunum og þar var minn fasti punktur á meðan ég var á flakki og það á eflaust ekkert eftir að breytast,“ segir Guðrún.
Guðrún fór í nám til Austurríkis eftir að hún lauk framhaldsskóla. Bæði dvaldi hún í Vín og Salzburg þar sem hún lærði um Evrópusambandið, en Guðrún stefndi á frama í utanríkisþjónustu eða hjá EFTA. Hana langaði jafnvel að starfa í Brussel ef Ísland myndi ganga í Evrópusambandið. Þær áætlanir breyttust þó fljótlega. „Eftir nám kom ég heim til Íslands og fékk starf aðstoðarmanns forstjóra Lyfjastofnunar. Þá allt í einu breyttist eiginlega stefnan hjá mér, ég fann að mig langaði að vinna við eitthvað sem hjálpar þeim sem minna mega sín.“
Guðrún fór því að skoða hjálparstörf hjá stofnunum eins og Sameinuðu þjóðunum og Rauða Krossinum. „Mér fannst ég þurfa að flytja erlendis til þess að fá meiri möguleika á starfi í þessum geira og pakkaði því í töskur og flutti aftur til Vínar en þar er mikið um alþjóðasamtök, - og stofnanir. Ég fór í rauninni út án þess að vera með neitt í höndunum en sótti um starf hjá þeim hjálparstofnunum sem ég fann og fékk að lokum vinnu sem skrifstofustjóri hjá hjálparsamtökunum World Vision.“ Þar vann Guðrún í rúmt ár áður en að löngunin til þess að fara á vettvang þar sem hjálparstörfin fara fram náði yfirráðum en samtökin starfa í 97 löndum. Þetta var hins vegar á þeim tíma sem fjármálakreppan var að byrja um alla Evrópu sem þýddi að flestir voru að draga saman seglin. „Það varð því ekkert úr því að ég færi á vettvang og stuttu seinna sagði ég upp vinnunni og kom heim til Íslands um jólin.“
„Þegar ég var komin heim sá ég auglýsingu um ABC skólann og ákvað að skella mér í hann en þar var ég í um tvo mánuði.“ Í kjölfarið starfaði Guðrún sem sjálfboðaliði með formanni ABC að stefnumótun starfsins. Hún var þó alltaf á leiðinni út aftur og var byrjuð að sækja um störf hjá erlendum stofnunum þegar henni var boðið launað starf hjá ABC sem verkefnastjóri. Þetta var í júní á síðasta ári en í nóvember var Guðrún svo ráðin framkvæmdastjóri ABC.
Starf framkvæmdastjóra ABC felur í sér hið hefðbundna utanumhald. Fjáröflun sem fer fram hérlendis er stór hluti af starfinu. Stuðningsaðilar okkar eru númer 1, 2 og 3 í starfinu að sögn Guðrúnar, en á bak við það hugtak leynast m.a. stuðningsforeldrar, fyrirtæki í formi vinafélaga og svo að sjálfsögðu allir þeir sjálfboðaliðar sem koma að starfinu. „Við viljum sinna þessum hópi betur og sýna þeim þakklæti okkar með því að veita þeim betri upplýsingar og efla samskiptin. Það er á dagskrá þetta árið sem og ýmsar skipulagsbreytingar.“ ABC barnahjálp er al-íslenskt hjálparstarf sem var stofnað í þeim tilgangi að veita nauðstöddum börnum varanlega hjálp og vera farvegur fyrir framlög gjafmildra Íslendinga. Hjálparstofnunin hefur áratuga reynslu á bakinu en á þessu ári fagnar ABC barnahjálp 25 ára stórafmæli. ABC rekur heimili og skóla í 8 löndum Afríku og Asíu fyrir u.þ.b.12.000 fátæk börn og götubörn.
„Við erum með einnig með fjáröflunarskrifstofur í Færeyjum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Draumurinn er að opna fleiri fjáröflunarskrifstofur, t.d. á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu til þess að geta hjálpað fleirum. Við erum að vinna að fullt af spennandi hlutum hér innanhúss sem og á vettvangi og ég er rosalega spennt og bjartsýn á framtíðina fyrir hönd ABC.“