Slysa- og bráðamóttakan í Keflavík er sú þriðja stærsta á landinu
Nýja sjúkradeildin á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sú best búna á landinu og með alla nýjustu tækni
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, klippti á borða á tveimur stöðum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á dögunum. Dagskráin hófst á þriðju hæð stofnunarinnar þar sem undanfarin misseri hefur verið unnið að því að innrétta sjúkradeildina. Þar eru nítján rými í eins og tveggja manna stofum með stórum baðherbergjum. Hver einstaklingsstofa er útbúin með sérstakri lyftu sem auðveldar rúmliggjandi sjúklingum að komast inn á baðherbergin. Þá verða settir upp margmiðlunarskjáir við öll rúm. Þar geta sjúklingar horft á sjónvarp eða vafrað um netheima.
Bylting verður á slysa- og bráðamóttöku HSS með opnun móttökunnar á jarðhæð D-álmunar nú um mánaðamótin. Starfsemin fer úr um 90 fermetra rými sem var orðið barn síns tíma og yfir í um 300 fermetra rými. Við opnun nýju slysa- og bráðamóttökunnar kom fram að komur þangað eru um 16.000 á ári hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hafa komur aukist um 40% á tæpum áratug. Slysa- og bráðamóttakan í Keflavík er sú þriðja stærsta á landinu á eftir Landspítala í Fossvogi og slysa- og bráðamóttökunni á Selfossi.
Willum Þór upplýsti í formlegri vígslu á aðstöðunni að slysa- og bráðamóttökunni hafi verið tryggðar aukalega 200 milljónir króna á ári af fjárlögum sem verður til að efla móttökuna enn frekar. Því var líka haldið fram við opnunina á þriðjudaginn að slysa- og bráðamóttakan sem verið væri að opna á nýjum stað á HSS væri sú glæsilegasta á landinu og heimafólk mætti vera stolt af aðstöðunni sem nú væri í boði.