Slökunarherbergi fyrir nemendur
Grindvíkingar frumherjar í að bæta líðan grunnskólabarna.
Í Grunnskóla Grindavíkur er slökunar- og skynörvunarrými sem notað er til þess að kenna nemendum að slaka á, læra á tilfinningar sínar og koma þeim í farveg. Guðrún Inga Bragadóttir, námsráðgjafi við skólann, segist ekki vita til þess að slíkt rými sé til í öðrum grunnskólum á landinu.
Öfunduð af tækjunum
„Þarna læra nemendur íhugun og slökun sem þau jafnvel læra hvergi annars staðar,“ segir Guðrún Inga Bragadóttir, námsráðgjafi við Grunnskóla Grindavíkur. Hún segir að misjafnt sé hvaða tæki sé notað hverju sinni og skynörvun gangi til dæmis út á það að hafa ekki alltaf kveikt á öllu í einu. Þarna er „hellir“ með ljósum á sem skipta litum, hengirúm, lampar með loftbólum, myndvarpi sem varpar fiðrildamyndum á vegg, dýnur og þægilegir púðar. Guðrún Inga segir tækin upphaflega hafa verið keypt fyrir húsnæði nýja skólans sem í dag hýsir nemendur 1.-3. bekkjar. „Tækin voru svo ekki notuð og við vildum gera eitthvað markvisst með þau. Margir öfunda okkur af þeim,“ segir hún og brosir.
Hefur haft góð áhrif
Guðrún Inga telur að grunnskólinn þar sem hún starfar sé mögulega frumherji á þessu sviði í grunnskólastarfi og gæti orðið leiðbeinandi fyrir aðra skóla. „Svona tæki eru mikið notuð með fötluðum til skynörvunar. Ég var fyrst með jógadýnur og slökunartónlist en þetta er miklu áhrifaríkara.“ Hún segir 50-60 nemendur nýta sér rýmið, meðal annars börn sem hafa fengið greiningu hjá BUGL. „Já, þau hafa gott af skynörvun, einnig nemendur sem haldnir eru kvíða eða eru í meðferð vegna reiðistjórnunar. Þetta er ákveðinn þáttur í sjálfsstyrkingu hjá þeim við að þekkja tilfinningar sínar og koma þeim í farveg. Þetta hefur haft góð áhrif á þau,“ segir Guðrún Inga og bætir við að misjafnt sé hversu oft þau komi. Það fari eftir eðli meðferðarinnar og hverjum og einum.
Starfsfólkið hefði gott af slökun líka
Guðrún Inga fékk Ragnar Jóakim Óskarsson, nemanda í 5. bekk, til þess að sýna blaðamanni hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Hann var fljótur að koma sér fyrir í hengirúminu og loka augunum. Þá las Guðrún Inga fyrir hann upp úr ævintýrabók í sérstakri slökunarútgáfu á meðan róandi tónlist ómaði úr geislaspilara. „Stundum hugsa ég til þess hversu gott við, starfsfólk skólans, hefðum líka af því að fá að koma hér inn í skamma stund í amstri dagsins,“ segir Guðrún Inga dreymin að lokum.
VF/Olga Björt