Sláturtíð hjá skólamatarfólki
Það er hefð á mörgum heimilum að taka slátur. Starfsfólk skólamatar.is í Keflavík breytti út af venjunni og hittist til að taka slátur en það eldar skólamat í fjölda skóla og leikskóla á hverjum degi.
„Mér fannst nauðsynlegt að starfsfólkið sem ekki þekkti þessa matargerð kynntist henni,“ sagði Axel Jónsson, forstjóri skólamatar. Í hópnum var fólk sem er vant sláturtöku úr sveitinni og mátti sjá fagmannleg handbrögð hjá vönum sem óvönum. Umfram allt var stemmning í hópnum innan um blóð, lifur, haframjöl og keppi. Fréttamaður VF getur staðfest að slátrið var frábært!