Skýstrókar í sylgju biblíubeltisins
Gylfi Már Sigurðsson er 25 ára Keflvíkingur en honum og kærustu hans, Söru Haynes, langaði að fara á fremur óvenjulegan stað í Bandaríkjunum og búa þar í stuttan tíma. „Við höfðum mikið talað um hvað okkur langaði að búa saman í Bandaríkjunum um skeið svo ég sótti um skiptinám í gegnum Háskóla Íslands,“ sagði Gylfi í samtali við Víkurfréttir. Þau langaði til þess að búa á stað sem ekki er endilega vinsæll meðal ferðamanna og kannski frekar óhefðbundinn. Oklahoma-fylki höfðaði til þeirra og varð University of Oklahoma fyrir valinu en hann er í háskólabænum Norman. Gylfi er að læra sagnfræði og almenna bókmenntafræði við Háskóla Íslands, en þarna úti er hann eingöngu í sagnfræðinámi. Námið hefur gengið mjög vel að sögn Gylfa og hefur hann verið að fá toppeinkunnir. Fluttust þau utan í lok síðasta sumars og líkar lífið vel í Oklahoma.
Fylkið Oklahoma er með þeim yngstu í Bandaríkjunum. Á fyrri hluta 19. aldar voru sett lög um að indíánaættbálkar austur við Mississippi-á skyldu færa sig um set og var þeim komið fyrir í Oklahoma. Í dag eru mörg augljós merki um indíánabúsetu, svo sem bæjarnöfn, götunöfn á borð við Tecumseh og Chautauqua, og auðvitað öll spilavítin. „Enn er mikið um indíána í fylkinu og er menning þeirra þó meira áberandi vegna þess hve stoltir þeir eru af uppruna sínum. Landslagið er ótrúlega flatt og það er oftast vindur hér, sem minnir okkur vissulega á Keflavík. Höfuðborg fylkisins er Oklahoma City og þangað förum við oft. Við köllum það bara að fara í bæinn eins og heima, enda ekki nema 20-30 mínútna akstur. Í borginni er m.a. að finna minningarstað og safn um Oklahoma City Bombing, eitt versta hryðjuverk sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum. Oklahoma er í hinu svokallaða Biblíubelti Bandaríkjanna, en heimamenn stæra sig af því að fylkið er kallað sylgja beltisins og fer það ekki framhjá neinum. Kirkjur eru nánast á hverju götuhorni og langflestir fara í kirkju á sunnudögum og jafnvel oftar í viku,“ að sögn sagnfræðinemans Gylfa.
Fólkið afar vingjarnlegt
Bærinn Norman, sem telur rúmlega 100 þúsund manns, hefur uppfyllt allar þær væntingar sem parið hafði og meira til. „Það fyrsta sem við tókum eftir var hvað fólkið hérna er ótrúlega vingjarnlegt og almennilegt og vill allt fyrir mann gera. Sem dæmi má nefna að fyrstu vikuna okkar hérna gaf þjónustustúlka okkur tvo miða á opnunarleik fótboltaliðs skólans, en hún sagði að við hreinlega yrðum að fá að fara á leik. Við eignuðumst svo mjög fljótt vini, bæði bandaríska og norska, og erum við mjög þakklát fyrir það enda höfum við átt margar góðar stundir saman á meðan við höfum búið hér,“ segir Gylfi.
Íþóttir skipa stóran sess
University of Oklahoma eða OU eins og hann er kallaður, er virtur skóli í Bandaríkjunum og einkum frægur fyrir fótboltaliðið þeirra Oklahoma Sooners. „Kennslan er svipuð og heima á Íslandi en námsmat mun þægilegra þar sem maður fer í mörg minni próf í staðinn fyrir eitt stórt eins og gert er í HÍ. Þannig hefur maður meiri möguleika á að bæta einkunnir sínar jafnt og þétt yfir önnina.“
Eini FIFA dómarinn á svæðinu
Ásamt því að sinna náminu hefur Gylfi verið að dæma knattspyrnu, en hann er FIFA-aðstoðardómari og vildi halda sér í æfingu á meðan á dvölinni stóð. „Svo ég kom mér í samband við góða menn sem tóku mér með opnum örmum.“ Gylfi segir knattspyrnuna sífellt að verða vinsælli í Bandaríkjunum og gæðin einnig að aukast og því hefur hann öðlast góða reynslu. „Ég er eini FIFA-dómarinn hér í fylkinu svo ég hef líka reynt að miðla reynslu minni áfram og gera fólk áhugasamara um dómgæslu og ég hélt m.a. fyrirlestur á dómararáðstefnu um hvernig fólk getur náð lengra. En ég er auðvitað mjög spenntur fyrir því að koma heim og dæma í Pepsi-deildinni á nýjan leik,“ en óðum styttist í það að fótboltinn hefjist hérlendis.
NBA-veiran blossaði upp
Oklahoma á heiðurinn að því að Gylfi enduruppgötvaði áhuga sinn á NBA-deildinni í körfubolta. Kannski er það vegna þess að í 20 mínútna fjarlægð er heimavöllur Oklahoma City Thunder liðsins sem er eitt af betri liðum deildarinnar. Þau skötuhjúin hafa verið dugleg að sækja leiki liðsins. „Okkur finnst fátt skemmtilegra en að fara og sjá nýja uppáhalds liðið okkar spila. Við erum búin að fara á nokkra leiki en liðinu hefur reyndar ekki gengið vel með okkur í húsinu þannig að við ætlum að láta úrslitakeppnina alveg eiga sig.“
Skýstrókar alls staðar í kring
Á þessum slóðum í Bandaríkjunum í apríl og maí á hverju ári er svokallað „tornado season“ (skýstróka tímabil) þar sem miklar náttúruhamfarir ganga yfir fylkið. „Fólkið hér er alvant þessum hrikalegu náttúruhamförum. Föstudaginn 13. apríl kom mikill skýstrókur hér yfir en við höfum auðvitað enga reynslu í þeim efnum og sýndum kannski ekki alveg rétt viðbrögð. Þegar viðvörunarbjöllurnar fóru að hljóma fórum við, forvitnu Íslendingarnir út að sjá hvað væri um að vera. Eftir að skýstrókurinn hafði gengið yfir komumst við að því að bjöllurnar þýða að maður eigi að leita skjóls undir eins. Talsverð eyðilegging varð hér í bænum af völdum skýstrókanna, skemmdir á húsum, tré voru rifin upp frá rótum, rafmagnsstaurar féllu og þess háttar, og alls ekki langt frá íbúðinni okkar, ekki nema í svona tveggja kílómetra fjarlægð. Blessunarlega slasaðist enginn í bænum, en kvöldið eftir dóu fimm manns og 29 slösuðust norðarlega í fylkinu af völdum skýstróks. Við vonum alla vega að við þurfum ekki að upplifa þetta aftur, enda mjög ógnvekjandi.“
En nú er þetta ævintýri þeirra Gylfa og Söru alveg að verða búið, en á þessum stutta tíma hafa þau gert svo margt. Þau fóru til Hawaii í haust og í „road trip“ í janúar þar sem þau keyrðu m.a. til Las Vegas, Kaliforníu og Arizona, en þau hafa einnig verið dugleg að skoða í kringum sig og farið á tónleika og fleira skemmtilegt. „Við komum svo heim í lok maí og erum mjög spennt fyrir að eiga íslenskt sumar, hitta fjölskyldu og vini, en sjáum auðvitað líka á eftir því að fara frá þessum skemmtilega stað og nýju vinunum okkar,“ segir Gylfi að lokum.