Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skýin við Útskála á sigurmynd
Sigurmynd Guðmundar af skýjafari við Útskála.
Fimmtudagur 2. janúar 2014 kl. 09:58

Skýin við Útskála á sigurmynd

Skýjafar við Útskálakirkju var viðfangsefni Guðmundar Sigurðssonar, lögreglumanns úr Garðinum, þegar hann tók sigurmyndina í ljósmyndasamkeppni Sveitarfélagsins Garðs. Efnt var til keppninnar á haustmánuðum en tilkynnt var um úrslitin á dögunum.

Sérstök dómnefnd skipuð af sveitarfélaginu fór yfir myndirnar sem bárust í keppnina. Dómnefndina skipuðu þau Hildur Ágústsdóttir, Bragi Einarsson og Hilmar Bragi Bárðarson, sem jafnframt var formaður dómnefndar.

Sveitarfélagið Garður efndi til ljósmyndasamkeppni þar sem viðfangsefnið er Garðurinn, umhverfið og mannlífið. Fjölmargar myndir bárust og kom það dómnefnd skemmtilega á óvart að myndefnið var fjölbreytt.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, afhenti Guðmundi sigurlaunin þann 30. desember sl. en fyrir sigurmyndina fékk Guðmundur myndarlega úttekt í ljósmyndavöruverslun þar sem hann getur örugglega endurnýjað myndavélina sína eða keypt sér nýjar linsur í ljósmyndatöskuna. Guðmundur er mikill áhugamaður um ljósmyndun og er duglegur að fanga augnablikin í mannlífinu í Garðinum.

Ljósmyndarar og áhugafólk um ljósmyndun er einnig hvatt til að halda áfram að fanga mannlífið og náttúruna í Garði á myndir því eflaust verður aftur boðað til keppni um bestu myndina úr Garði á nýju ári.


Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, afhendir Guðmundi sigurlaunin.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024