Skrýtin staða að vera í skóla þar sem nemendum fækkar
segir Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla, sem fór talsvert í golf í sumar og segir göngustígana í Reykjanesbæ mjög heillandi.
„Sumarfrí skólastjóra er vanalega ekki langt né samfellt en dögunum sem ég gat tekið frí var vel varið. Ég fór í maí í dásamlegum hópi kvenna að gosstöðvum sem var áhrifaríkt. Í sumar útskrifaðist tengdasonur minn, Jón Ágúst, með tvær BS gráður frá HR og sonur minn, Þröstur, ásamt kærustunni sinni, Írisi Ósk, útskrifuðust frá bandarískum háskóla með BS gráður. Það voru því veisluhöld í kringum það,“ segir Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla í Reykjanesbæ, þegar Víkurfréttir spurðu hana út í sumarfríið.
„Ég fór talsvert í golf í sumar og dagsferð á völlinn í Öndverðarnesi með góðum æskuvinkonum á besta degi sumarsins stóð klárlega upp úr. Svo fékk ég að verja góðum tíma með barnabarninu mínu, Baldri Loga, þegar foreldrarnir, Sóley og Jón, fóru til Hollands að undirbúa flutning þangað.“
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
„Ég held að fertugafmælisveisla Hildar Bjarneyjar frænku hafi komið mest á óvart. Eftir langan tíma án partýstands voru allir svo tilbúnir að skemmta sér. Mikið fjör.“
Golfvöllurinn í Öndverðar-nesi uppáhaldsstaðurinn
Golfvöllurinn í Öndverðarnesi er uppáhaldsstaður Sigurbjargar innanlands. „Við erum með sumarbústað í nágrenni hans og förum oft og spilum golf þar. Svo er alltaf fallegt að spila á Kiðjabergi.“
Aðspurð hvernig Sigurbjörg myndi skipuleggja góða dagsferð með gesti á Suðurnesjum, sagði hún: „Það er svo margt spennandi á Suðurnesjum og Reykjanesbæ. Sígilda svarið var Garðskagi og Bláa lónið en mér finnst göngustígar Reykjanesbæjar líka mjög heillandi. Sérstaklega nýja leiðin í Grænásnum. Hún er mjög skemmtileg.“
Hver er tilfinningin fyrir haustinu og komandi vetri?
„Tilfinningarnar eru mjög blendnar gagnvart haustinu. Þegar maður starfar í þessu umhverfi sem skólinn er þá hefur heimsfaraldur mjög mikil áhrif og á mjög marga þegar upp koma smit. Haustið hefur því miður ekki farið vel af stað en við vonum það besta en erum undirbúin undir að þurfa að bregðast við, hratt og örugglega.“
Hver eru stærstu málin í þínum skóla um þessar mundir?
„Það eru mörg verkefnin í skólanum mínum og sem betur fer eru þau flest skemmtileg. Við erum að stofna nýtt námsúrræði fyrir nemendur í Reykjanesbæ, Lindina, sem er skemmtilegt verkefni. Við erum svo að vinna stór verkefni tengd læsi og námsárangri sem verður gaman að taka þátt í og fylgjast með. Það er skrýtin staða að vera í skóla þar sem nemendum fækkar en það skapar líka tækifæri til að gera nýja hluti. Við hefjum t.d. skóla síðar á morgnana fyrir unglingana okkar eða klukkan 8:30 og höfum einnig tekið upp klukkutíma kennslustundir sem hafa reynst afar vel. Það eru bara spennandi tímar framundan í Akurskóla.“