Skrifborðið sem pabbi smíðaði eftirminnilegast
Anna Hulda Júlíusdóttir er úr Garðinum en býr á Siglufirði þar sem hún rekur verslunina Hjarta bæjarins þar sem hún selur hönnun og handverk ásamt geggjuðu garni frá LANG sem hún er umboðsaðili fyrir. Anna Hulda er djákni og starfar í orlofsbúðum fyrir aldraða á Löngumýri í Skagafirði, ásamt því að vinna ýmis störf tengd kirkjunni. „Svo er ég að leika mér að segja ferðamönnum og heimafólki frá þeirri sögusögn að Mjallhvít hafi fæðst á Siglufirði,“ segir Anna Hulda í samtali við Víkurfréttir.
Er öðruvísi að undirbúa jól á Sigló en í Garðinum?
Ég held að það sé ósköp svipað. Stærsti munurinn er þó nálægðin við alla verslun er meiri hér og nánast allt hægt að versla í heimabyggð. Allur undirbúningur er þó háður innri líðan og hvernig við erum stemmd hverju sinni. Hvort heldur að við sækjumst í ys og þys eða þurfum rólegri umgjörð.
Ertu að fá þitt fólk til þín um jólin eða kemur þú eitthvað suður?
Við verðum hér heima um jólin og eigum ekki von á fólkinu okkar en við erum ekki alveg búin að ákveða hvernig áramótunum verður háttað. Stefnir ekki í rauð jól um allt land, og því aldrei að vita nema við brunum suður.
Ertu mikið jólabarn?
Já ég er mikið jólabarn og mér þykir þessi árstími yndislegur. Aðventan er annarsamur og skemmtilegur tími hjá okkur fjölskyldunni, í verslunarrekstri, tónleika- og kirkjustarfi. Og sem betur fer hefur allt umstang minnkað með árunum og við njótum tímans með samverustundum.
Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?
Það sem kemur fyrst upp í hugann er hefðin fyrir því að bera út jólakortin á aðfangadag og um leið að banka uppá og óska vinum og ættingum gleðilegar jóla.
Hvað er ómissandi á jólum?
Messa á aðfangadag og Malt og appelsín.
Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?
Hangikjötsboðið hjá mömmu á jóladag.
Bakar þú smákökur fyrir jólin?
Í ár fær fagfólkið að mestu að sjá um baksturinn en jú jú hendir maður ekki alltaf í nokkrar sortir.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Ég reyni að vera búin að öllu slíku um miðjan mánuð.
Hvenær setjið þið upp jólatré?
Á afmælisdaginn minn, 11. desember.
Eftirminnilegasta jólagjöfin? Skrifborð sem pabbi smíðaði.
Hvenær eru jólin komin hjá þér?
Þegar friður færist yfir hjarta og sál. Jólin komu 4. desember í ár þegar strákarnir mínir, Tryggvi og Júlíus, sungu „Jól jól skínandi skær“ með Heru Björk í Siglufjarðarkirkju.