Skötuveisla að sumri í Garði

Ellefta skötumessan í Garði var haldin í Gerðaskóla á Þorláksmessu að sumri. Alls mættu 400 manns í veisluna þar sem í boði voru skata og saltfiskur með rófum, kartöflum, hamsatólg og öðru viðbiti.
 
Skötumessan er fjáröflunarskemmtun en skipuleggjendur veislunnar segjast ekki þurfa taka upp veskið í aðdraganda veislunnar. Af þeim sökum rennur allur aðgangseyrir, auk styrkja frá fyrirtækjum, til góðra málefna.
Að þessu sinni styður skötumessan við krabbameinsjúk börn á Suðurnesjum, skynörvunarherbergi við Öspina í Njarðvíkurskóla, starfsemi eldri borgara á Ásbrú, Skátana í Keflavík, Íþróttafélag fatlaðra NES og Velferðasjóð Suðurnesja.
 
Á skötumessunni eru ávallt fjölbreytt skemmtiatriði í gamanmálum, söng og tónlist. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá kvöldinu. 
 
Nánar verður fjallað um skötumessuna í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í ágúst.

 
Gunnar Þórðarson tónlistarmaður fékk sér bara saltfis. „Aldrei borðað skötu,“ sagði hann og bað um hamsatólg yfir saltfiskbitana. Ólafur Helgi lögreglustjóri fékk sér hins vegar mikið af skötu og fór fleiri en eina ferð á hlaðborðið.