Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skötumessan nálgast
Skötumessan verður haldin í Gerðaskóla i Garði 20. júlí næstkomandi. Þessi mynd var tekin á Skötumessunni í fyrra.
Mánudagur 11. júlí 2016 kl. 15:10

Skötumessan nálgast

Hin árlega Skötumessa verður haldin í Gerðaskóla í Garði miðvikudaginn 20. júlí næstkomandi. Þetta verður tíunda árið í röð sem Skötumessan er haldin. Í tilkynningu frá skipuleggjendum kemur fram að von sé á fullu húsi eins og alltaf áður.

Skötumessan er áhugafélag um velferð fatlaðra. Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir jafnframt að allir sem mæti séu þátttakendur í því að styðja við bakið á þeim sem þurfa á aðstoð að halda. Í tilefni af tíu ára afmæli Skötumessunnar verður meira lagt í stuðning við einstök verkefni en áður og hafa nokkur fyrirtæki gengið í lið með skipuleggjendum á afmælisárinu í því skyni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í fyrra rann ágóði af Skötumessunni til Hæfingarstöðvarinnar á Ásbrú og var stofnuninni afhent skynörvunar- og hreyfiherbergi.

Dagskrá Skötumessunnar í ár er hefðbundin og hefst klukkan 18.30 með glæsilegu hlaðborði. Boðið verður upp á skötu, saltfisk, plokkfisk og meðlæti. Að venju verður boðið upp á fjölbreytta skemmtidagskrá og meðal dagskrárliða eru Dói og Baldvin sem leika á harmonikku, Páll Rúnar Pálsson, Davíð Már Guðmundsson, Óskar Ívarsson og Andri Páll Guðmundsson. Björn Ingi Bjarnason, formaður Hrútavina, verður ræðumaður kvöldsins. Þá mun Hljómsveit Rúnars Þórs leika. Styrkirnir í ár verða afhentir á Skötumessunni.

Það er von forsvarsfólks Skötumessunnar að eins og áður mæti fólk sem vill halda til haga þjóðlegum matarvenjum og siðum Íslendinga og slái tvær flugur í einu höggi og leggi góðum málefnum lið. Miðinn kostar 4.000 krónur og er hægt að tryggja sér miða með því að leggja inn á reikning Skötumessunnar: 0142-05-70506, kennitala 580711-0650.

Frá Skötumessunni í fyrra.