Skötumessa í Garðinum í kvöld
Enn á ný er blásið til Skötumessunnar í Garði. Samkvæmt venju er Þorláksmessa að sumri 20. júlí ár hvert og hefst messan kl. 19:00 í Miðgarði Gerðaskóla og verður haldið upp á þau tímamót með hressilegu skötuáti. Þá verður einnig sérstakur matseðill fyrir þá sem vilja annað góðgæti úr Garðsjónum en skötuna. Þeim stendur til boða saltfiskur, kinnar og fl. Svokallaður Barnamatseðill. Allir eru velkomnir, konur og karlar.
Skemmtidagskrá Skötumessunnar hefur ávallt verið öflug og nú mæta nokkrir landsþekktir skemmtikraftar til að styðja gott málefni. Meðal þeirra sem troða upp er söngsveit fatlaðra af Suðurnesjum en þau hafa þegar hafið æfingar fyrir kvöldið svo við eigum von á góðu.
Aðrir eru í góðri æfingu eins og Bjartmar, Hreimur, Árni Johnsen, Harmonikkuunnendur af Suðurnesjum, Kolfinna ung of stórefnileg söngkona úr Garði og síðast en ekki síst er Raggi Bjarna enn með kjæk í hendinni og leiðir Þorgeir Ástvaldsson með sér, þann síkáta útvarps- og tónlistarmann.
Að venju verða óvæntar uppákomur og sögur sagðar af gestum úr sal og heyrst hefur af óvæntu atriði sem kemur öllum til að hlægja.