Skötumessa á Þorláksmessu að sumri
Skötumessa á Þorláksmessu að sumri til var haldin til stuðnings Hollvinasamtökum HNLFÍ og MND í Oddfellowhúsinu í Reykjanesbæ í gær. Þorláksmessa að sumri er samkvæmt dagatalinu þann 20. júlí og var lögleidd 1237 til að minnast þess að þann dag 1198 voru bein Þorláks helga tekin upp til að nýtast til áheita.
Var sumarmessa þessi ein mesta hátíð ársins á Íslandi fyrir siðaskipti. Jóhannes Páll páfi II útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands og um leið er hann verndari Kristkirkju í Reykjavík. Þorlákur er eini íslenski dýrlingurinn í kaþólskri trú sem hlotið hefur dýrlinganafnbót.
Aðsókn í skötuveisluna í gær var mjög góð en uppselt var í veisluna. Þarna mátti sjá fólk á öllum aldri sporðrenna kæstri skötu en þeir sem réðu ekki við skötuna gátu fengið saltfisk.