Skötuboðið hjá Sibba frænda ómissandi
Sandgerðingurinn Hildur Hjartardóttir svarar jólaspurningum VF
Sandgerðingurinn Hildur Hjartardóttir, umsjónarmaður flugupplýsingakerfa hjá Isavia, er mikið jólabarn og finnst skötuboðið hjá Sibba frænda sínum ómissandi. Hún er ekki mikill bakari og frekar sein í jólagjafainnkaupunum. En hér svarar Hildur jólaspurningum VF:
Ertu mikið jólabarn?
Ég er jólabarn. Ég hlakka alltaf til aðventunnar og jólanna. Mér finnst notalegt þegar jólaljósin lýsa upp skammdegið og jólalögin fara að hljóma, allt verður svo fallegt og ég verð alltaf örlítið viðkvæmari á þessum tíma árs, sérstaklega núna undanfarin ár, það er kannski aldurinn.
Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?
Það er mér mjög minnisstætt þegar öll stórfjölskyldan föðurmegin hittist alltaf á aðfangadag heima hjá ömmu og afa til að borða saman og opna pakkana. Við erum að tala um að pabbi á fimm systkini og þau eiga samtals fullt af börnum þannig að það rétt hægt að ímynda sér pakkaflóðið og amma var ekkert að drífa sig að ganga frá eftir matinn, í minningunni þá vorum við krakkarnir endalaust lengi að bíða eftir að fá að opna pakkana.
Hvað er ómissandi á jólum?
Það sem mér finnst ómissandi yfir jólahátíðina er skötuboðið hjá Sibba frænda á Þorláksmessu, þó svo ég borði ekki skötu, þá er það bara þessi vonda lykt og stemningin með fjölskyldunni, það er eitthvað ómissandi við það, heitt súkkulaði heima hjá mömmu og pabba og fjólublái molinn í Quality Street.
Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?
Skemmtilegast um jólahátíðina er að sjá þessa einlægu gleði og eftirvæntingu í augum sonar míns og barnanna sem eru í kringum mig, fara á jólaball, hitta jólasvein, mála piparkökur og að vera með mínum nánustu. Einnig er mjög gaman og hátíðlegt að fara á jólatónleika.
Bakar þú smákökur fyrir jólin?
Ég er ekki mikill bakari, ég reyndi að baka smákökur úr tilbúnu deigi en það mistókst, en ég reyndi þó! Við mæðgin látum það duga að kaupa piparkökur til að skreyta og svo sér mamma um baksturinn, mamma gerir allt best.
Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Ég er vön að vera svona frekar á síðasta snúningi að klára jólagjafirnar en það hefst nú alltaf og allt saman tilbúið fyrir Þorláksmessu, nema í ár þá kláraði ég allar gjafirnar í nóvember og búin að pakka öllu inn þannig að núna er bara að vera og njóta. Svo fer að líða að því að setja upp jólatréð og skreyta það, ætli það verði ekki gert um næstu helgi
Eftirminnilegasta jólagjöfin?
Eftirminnilegasta jólagjöfin mín eru í raun tvær, vasadiskó sem ég var alveg ótrúlega ánægð að fá og skautar. Mjög vel nýttar jólagjafir og þá sérstaklega skautarnir þeir voru reimaðir á mig 24/7 alla daga meðan hægt var að skauta
Hvenær eru jólin komin hjá þér?
Á aðfangadag, þegar ég hef heimsótt kirkjugarðinn og amma er mætt í sínu fínasta pússi í jólamatinn, þá eru jólin komin.