Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Skortur á yfirsýn algengustu mistökin
Haukur Hilmarsson, ráðgjafi í fjármálahegðun.
Sunnudagur 20. mars 2016 kl. 06:00

Skortur á yfirsýn algengustu mistökin

„Algengustu mistökin sem fólk gerir í fjármálum er að skorta yfirsýn og treysta bara á tilfinninguna sína,“ segir Haukur Hilmarsson, ráðgjafi í fjármálahegðun. Hann rekur heimasíðuna Skuldlaus.is og opnaði nýlega ráðgjafastofu í Framsóknarhúsinu við Hafnargötu 62 í Reykjanesbæ. Haukur er með BA-próf í félagsráðgjöf og hefur lokið námi frá Center of Financial Social Work í Bandaríkjunum. Haukur hefur haldið ýmis námskeið um fjármálahegðun, gefið út kennsluefni og veitt fólki ráðgjöf. Til hans leitar fólk í ýmsum aðstæðum. Hjá sumum eru fjármálin í molum en aðrir vilja einfaldlega gera betur. Hann vinnur með fólki að því að yfirvinna kvíðann, streituna og frestunaráráttuna sem oft vill fylgja fjármálunum.

Haukur kveðst vera nokkurs konar einkaþjálfari í fjármálum. Hann segir vel hægt að líkja fjármálum við líkamsrækt og að oft verði fólk alveg hreyfingarlaust í fjármálunum, hafi enga yfirsýn og eyði í hitt og þetta til að láta sér líða betur. Á meðan stækka skuldirnar. „Ég kalla þetta litlu verðlaunin, þegar fólk leyfir sér að eyða peningum til að láta sér líða betur. Sumum finnst til dæmis í lagi að fá sér fullt af nammi því það var svo erfiður dagur í vinnunni. Auðvitað væri bara best að leyfa sér slíkt einu sinni í viku, óháð því hvernig gengur í vinnunni. Það safnast þegar saman kemur og hjá mörgum fer drjúgur peningur í nammi og skyndibita sem er keypt alveg hugsunarlaust,“ segir hann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í lagi að eyða í óþarfa
Í ráðgjöf sinni kennir Haukur fólki grunnatriði eins og að afla sér upplýsinga um það hvernig það stendur í fjármálunum og að byrja að nota svokallað umslagakerfi, sem hann segir mjög gott ráð til að koma jafnvægi á fjármálin. „Þá borgar fólk alla reikninga í byrjun mánaðar. Ef fólk á 100.000 krónur eftir er sniðugt að setja 25.000 krónur í umslag fyrir hverja viku mánaðarins. Sú upphæð er svo látin duga fyrir neyslu út mánuðinn.“ Haukur tekur dæmi um manneskju sem fór oft á skyndibitastað. „Þegar við lásum yfir ársyfirlit bankareikningsins sáum við að ferðir  þangað voru tíðar. Þá kom í ljós að eftir erfiðan dag fannst henni hentugt að fara út að borða með börnin. Hver ferð kostaði 7.500 krónur svo þetta var töluverð upphæð í hverjum mánuði. Ég hvatti hana til að skipuleggja sig og fara svo á veitingastaðinn í lok mánaðar og hafa ferðina þá sem verðlaun fyrir að hafa verið dugleg að spara. Hún gerði þetta og sagði að ferðin hafi verið eins og jólin og miklu ánægjulegri en þegar hún fór þangað af því að það stóð illa á.“ Haukur segir að fólk eigi endilega að hafa gaman og eyða pening í óþarfa en að mikilvægt sé að hafa skipulag á eyðslunni og hafa efni á henni.

Neysluhyggjan ríkjandi
Haukur segir neysluhyggju ríkjandi á Íslandi og að fólk sé stundum upptekið af því hvernig það birtist öðrum og leggi því mikla áherslu á að klæðast dýrum fötum og eiga flotta síma, svo dæmi séu tekin. „Oft er það bláfátækt fólk sem á flottustu tækin og fötin og hugsar mest um að koma vel fyrir. Það hugsar með sér að það borgi bara rafmagnsreikninginn og leikskólagjöldin seinna. Það sem skipti máli í núinu sé að koma vel fyrir. Kannski virkar þetta í nokkrar sekúndur en til lengri tíma litið er auðvitað miklu skynsamlegra að sníða sér stakk eftir vexti og hafa forgangsröðina rétta. Fólk er ekki minna virði þó svo að það eigi ekki allt það flottasta.“

Aðspurður að því hvort Íslendingar séu eyðsluglaðari en aðrir segir Haukur erfitt að segja til um það. Aftur á móti sé oft sagt að ástandið sé betra í Noregi, Danmörku og í Þýskalandi. „Í þessum löndum hugsar fólk frekar um útgjöldin sín en tekjurnar eins og Íslendingar gera. Hér á Íslandi biður fólk um hærri laun þegar það gengur illa með fjármálin. Víða erlendis mótmælir fólk hástöfum þegar bensínverðið hækkar. Þar er fólk útgjaldamiðað en ekki tekjumiðað. Hérna er fólk mjög viljugt að fara í verkföll en það gerist sárasjaldan að verðhækkunum sé mótmælt. Þessum hugsunarhætti mætti breyta.“

Fjármálin mál allrar fjölskyldunnar
Fjármálin eru málefni allrar fjölskyldunnar að mati Hauks. Hann segir fjárhagsvandræði oft mega rekja til samskiptaleysis hjá hjónum. Fólk eigi að ræða saman áður en fjárfest er í dýrum hlutum og skipuleggja sig þannig að það setji fjármálin ekki úr skorðum. „Börnin mættu líka byrja að læra um fjármál miklu fyrr, jafnvel um þriggja ára aldurinn. Það er til dæmis hægt að kenna þeim með því að leyfa þeim að velja matseðil vikunnar. Þá sjá þau að það er ekki hægt að hafa jólamat alla daga eða fara út að borða því það kostar einfaldlega of mikið. Það er mjög gott að ræða þessi mál við börnin því þau eiga svo auðvelt með að spara og ræða um peninga, ólíkt mörgum fullorðnum.“