Skortur á spennumyndum
– segir Einar Michaelsson, 21 árs gamall kvikmyndagerðarmaður, sem vill eiga sinn þátt í að breyta íslenskri kvikmyndagerð.
Einar Michaelsson, 21 árs nemandi í kvikmyndagerð kláraði nám í Kvikmyndaskóla Íslands fyrir skemmstu og gerði stuttmyndina Hversdags gambítur sem útskriftarverkefni. Myndin hefur vakið talsverða athygli, sér í lagi fyrir að hampa Boga Ágústssyni sem illmenni í einu af aðalhlutverkunum.
Einar hefur búið í Innri-Njarðvík frá sex ára aldri en hann bjó Keflavík fyrir þann tíma. „Ég er sko héðan, algjörlega,“ segir hann í upphafi spjalls okkar.
Eftir nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja skráði Einar sig í tveggja ára nám í Kvikmyndaskóla Íslands.
„Það var gaman. Það var ekkert annað nám sem kom til greina ef ég á að segja satt. Maður var alltaf að horfa á bíómyndir og ég var eiginlega búinn að ákveða mjög ungur hvað ég ætlaði að gera. Mér datt það í hug þegar ég var svona átta ára að það væri örugglega gaman að búa til bíómyndir þegar ég yrði fullorðinn.“
Og þú hefur staðið við það og haldið þinni stefnu.
„Já, ég var alveg fastur á þessu, að ég ætlaði að gera bíómyndir. Svo dofnaði stuttmyndagerðin smá þegar ég kom í FS. Mér þótti það svolítið leiðinlegt að það var ekkert í gangi þar, engir tímar, enginn kvikmyndaklúbbur eða neitt. Eftir að ég hætti þá byrjaði Kári félagi minn með kvikmyndaklúbb þar en sá klúbbur er ekki lengur til held ég, mér skilst að hann hafi verið eini drifkrafturinn á bak við þetta.
Eftir að ég kláraði skólann heyrði ég að það væri hægt að sækja um í kvikmyndaskóla í bænum og þá ég gerði það strax. Þar fór ég í nám í leikstjórn og handritagerð, það voru svona helstu fögin en svo fær maður auðvitað að prófa ýmislegt annað, við tókum leiklistaráfanga og svoleiðis.“
Hvert stefnir svo hugurinn?
„Ef mann dreymir stórt þá væri það að búa til stórar bíómyndir alla daga en ég væri til í að fá að klippa og leikstýra alla daga, það er aðeins raunsærra markmið. Stórar bíómyndir eru samt alltaf lokatakmarkið og ég tel mig nógu ákveðinn til að ná því á endanum.“
Hversdags gambítur
Lokaverkefni Einars úr Kvikmyndaskólanum var stuttmyndin Hversdags gambítur sem er spennumynd í anda mynda Quentin Tarantino.
„Hún er svolítið ólík öðrum útskriftarmyndum sem voru gerðar,“ segir hann. „Hún er svolítið löng, margir tökustaðir og margir leikarar – mikið í hana lagt. Flestar þessar útskriftarmyndir eru rólegar og fylgja bara einni persónu, voða mikil dramatík. Þá var stefnan mín að gera eitthvað akkúrat öfugt, gera eins stóra „action“-mynd og var í boði. Við að vísu svindluðum kannski smá, í skólanum fær maður fjóra tökudaga til þess að klára að taka upp svona útskriftarmynd af því að græjurnar eru ekki í boði það lengi – en við áttum allar græjur sjálfir þannig að við lengdum tökutímann upp í ellefu daga.
Það var reyndar hægara sagt en gert. Það var mikið af hlaupum fram og til baka, mér finnst ég hafa lært mikið af þessum tökum um hvernig það er í alvörubransanum því ég var með tvo aðalleikara. Annar aðalleikarinn, hann Andri, er að þjálfa íþrótt, er í leikhóp, vinnu og skóla. Svo það var mjög erfitt að hitta á þegar hann væri laus, þetta þurfti að vera vel skipulagt. Einn daginn gat annar leikarinn komið á milli tíu og tvö en hinn tólf og fjögur, þá höfðum við tveggja tíma glugga á milli tólf og tvö til að taka upp.“
Mafíuforinginn Bogi Ágústsson
Það kom mér skemmtilega á óvart að sjá fréttamanninn Boga Ágústsson í burðarhlutverki í myndinni. Ef við byrjum á því, hvernig datt þér hann í hug og hvernig fékkstu hann í þetta?
„Sko, það voru ekki margir sem trúðu á mig þegar ég byrjaði á að minnast á þetta en hann var eiginlega fyrsti maðurinn sem mér datt í hug fyrir þetta hlutverk. Ég hugsaði: „Bogi Ágústsson, hann gæti verið flottur vondi gæinn minn.“ Það hlógu náttúrlega allir að mér. „Bogi Ágústsson? Fréttamaður?“
Ég sagðist halda að hann gæti verið svolítið ógnvekjandi og prófaði bara að senda á hann á Instagram. Hann tók jákvætt í þetta og bað mig að senda sér handritið.“
Það er skemmst frá því að segja að Bogi svaraði Einari með orðunum: „Já, ég er til.“
Byrjaði að taka upp stuttmyndir á síma
„Ég var mjög ungur, var svona sjö ára þegar ég átti Nokia-síma með snertiskjá. Þá fór ég að taka upp stutt myndskeið á símann. Ég lærði að það var hægt að ýta á pásu og halda svo áfram í einni klippu, þannig að ég var að taka upp smá stuttmyndir. Ég kunni ekkert að klippa þá en þetta var mín leið til þess, bara ýta á pásu og græja svo næstu senu. Þegar ég var átta ára fékk ég litla Canon-myndavél og fór að taka fullt af stuttmyndum upp úr því. Mest af þessu er á YouTube, fólki finnst það vandræðalegt fyrir mína hönd en mér er alveg sama. Mér þykir gaman fólk geti séð hverju mikill amatör maður var upp í myndirnar sem ég er að gera núna.“
Einar segir að síðan hafi hlutirnir þróast hratt, hann sá strák í skólanum nota Windows Movie Maker klippiforrit og varð hvumsa. „Ég sagði bara; „hvað er þetta?“ Var alveg í sjokki, þú gast klippt saman einhver vídeó í eitt. Ég prófaði það og svona þróast þetta áfram, maður verður bara betri og betri í því að klippa.“
Hvað ætlarðu að gera núna þegar þú ert búinn með Kvikmyndaskólann, ætlarðu út og mennta þig meira?
„Ég held ekki, held að ég reyni að koma mér af fullum krafti út á vinnumarkaðinn. Maður getur lært fullt í skóla en mér finnst ég vera á þeim stað að ég þurfi að fara að vinna við þetta. Mér finnst ég læra mest af því að gera hlutina, ég lærði meira á því að vera í tökum heldur en að sitja í skóla átta tíma á dag. Auðvitað á maður ekki að útiloka neitt, aldrei að segja aldrei, en eins og staðan er núna ætla ég að koma mér út á markaðinn,“ segir Einar í lokin og bætir við að sér finnist íslensk kvikmyndagerð frekar einsleit og hann vilji breyta því. „Það er skortur á spennumyndum og ef það er eitthvað sem ég vil skilja eftir mig þá væri það að koma þeim á meira framfæri,“ segir þessi Quentin Tarantino Íslands.