Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skórnir skipta öllu máli í gönguferðum
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 12. október 2020 kl. 09:51

Skórnir skipta öllu máli í gönguferðum

Agnar Guðmundsson vildi bæta eigin heilsu og þann 6. febrúar 2016 var Einar Skúlason (Gönguklúbburinn Vesen og Vergangur) með ferð um Prestastíg sem er forn þjóðleið milli Hafna og Grindavíkur. „Við hjónin ákváðum að skrá okkur í þá ferð og satt best að segja þá ætlaði ég alls ekki að fara enda veður vont og vetrarríki mikið. Ég hélt ég myndi ekki lifa af þessa ferð en áhuginn var kviknaður og ég fór í fjórtán aðrar ferðir vítt um breitt um Reykjanesið það sem eftir lifði febrúarmánaðar 2016,“ segir Agnar þegar hann er spurður um hvað hafi vakið áhuga hans á fjallgöngum og útivist.



– Hvernig skipuleggur þú þínar gönguferðir?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Almennt tek ég þátt í skipulögðum ferðum, helst þar sem einhver djörfung eða fíflaskapur ræður för. Ef ég skipulegg ferðir á eigin vegum þá er eitthvað sem hefur kveikt áhuga minn, t.d. sögulegir atburðir fyrri tíma, lítt þekktar og ókannaðar þjóðleiðir eða ég hef séð eitthvað í fyrri ferðum sem þarfnast nánari skoðunar. Þá er byrjað að skipuleggja ferðina á korti, hnit sett í staðsetningartækið, veður og birtuskilyrði metin fyrir ferðina og svo bara lagt í‘ann.

– Hvernig er best að búa sig fyrir gönguferð?

Það fer alfarið eftir aðstæðum, veðurspá og lengd göngu. Almennt huga ég að klæðnaði, öryggisþáttum, rafhlöðum fyrir tæki og mat sem dugar þó eitthvað komi upp á.

– Hvernig klæðir þú þig fyrir göngur?

Góðir skór, ull og skel eru lykilatriði – dúnúlpa er líka með ef veður er þurrt og kalt.

– Hvað skiptir mestu máli í búnaði?

Skór, skór sem passa manni og halda manni þurrum. Í raun það eina sem maður þarf að hafa í lagi áður en maður byrjar að ganga, svo bætir maður við búnað eftir því sem þarfirnar kvikna. Gott að vera með skel úr öndunarefni ef von er á votviðrum, brodda í snjó/klaka og góðan ullarfatnað.

– Hvað er í bakpokanum?

Það er höfuðljós, húfa, vettlingar, Íbúfen, hælisplástrar, nokkrir pokar og pappír, sokkapar til skiptanna, auka rafhlöður fyrir höfuðljósið. Ekki langt undan er skelin og annar búnaður.

– Hvernig nesti ertu með á gönguferðum?

Gott brauð með smjöri, kæfu, hamborgarhrygg, eggjum og sultu, hálfur lítri af vökva fyrir hverjar tvær klukkustundir nema nóg af vatni sé á leiðinni, þá þarf minna. Stundum kjötsúpa eða hakk og spaghetti í hitaboxi. Fyrir fjallgöngur er betra að vera með orkuríkara nesti sem er léttara.

– Ferðu hratt yfir?

Nei, alls ekki. Ferðirnar eru nokkurs konar hugleiðsla, úrvinnsla verkefna lífsins sem maður fæst við hverju sinni. Ef veður gott, náttúrufegurð mikil þá er hægara farið yfir.

– Hvernig er best að byrja?

Sennilega að skoða gönguhópana á Facebook. Vesen og Vergangur eru með reglulegar göngur alla þriðjudaga og sunnudaga, einnig eru þar lokaðir hópar. Einar Skúlason er alveg dásamlegur félagi og gott að vera í þeim hópi. Gönguhópur Suðurnesja, þar hafa orðið til undirhópar sem stunda reglulegar göngur. Einnig gott að finna ágætt æfingarfjall, t.d. Þorbjörn, hann er mjög aðgengilegur, þrunginn sögu og fjölbreyttur, stunda æfingar þar. WAPP-appið er líka með fullt af gönguleiðum með leiðbeiningum, svo er Wikiloc óþrjótandi brunnur gönguleiða.

– Hversu oft ferðu á fjöll?

Ætla það sé ekki einu sinni til tvisvar í viku að jafnaði.

– Áhugaverðasta göngusvæðið á Suðurnesjum?

Þessi er erfið. Þjóðleiðirnar yfir háveturinn, t.d. Þórustaðarstígur og Skógfellsstígur, um vorin er svæðið í kringum Sogin, t.d. Trölladyngjan, Fíflavallarfjall og Grænadyngja í uppáhaldi, mögnuð litadýrð, yfir hásumarið er gott að vesenast í Fagradalsfjallgarðinum og Keili en nú þegar haustar þá eru það þessi dalverpi, Nátthagi, Maradalur (stundum nefndur Dauðadalur) og Stóri Leirdalur, það er einhver dulúð við þessa staði sem eru umluktir algjörri kyrrð.

– Hvert hefur þú ekki komið en langar að ganga um?

Hraundrangi í Öxnadal er klárlega sá tindur sem ég á eftir en er mest spenntur fyrir að fara. Austurland er svo allt í vinnslu, uppáhaldsfjöllin mín eru þar.