Skorað á Víkurfréttir í lestraráskorun
-starfsmenn hafa valið Pál Ketilsson til að lesa fyrir starfsfólk Sparisjóðsins í Keflavík.
Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar hefur sett af stað lestraráskorun þar sem lesið verður upp úr bókum í fyrirtækjum á Suðurnesjum. Eiríkur Hermannsson fræðslustjóri Reykjanesbæjar reið á vaðið og las upp úr Íslandsklukku Halldórs Laxness fyrir starfsfólk Víkurfrétta sl. þriðjudag og skoraði um leið á Víkurfréttir um að starfsmaður fyrirtækisins fari í annað fyrirtæki næsta þriðjudag og lesi fyrir starfsfólk þess fyrirtækis og skori á það.
Upplesaranum fylgir Keðjulestrarbókin þar sem fyrirtækið, upplesarinn, textinn og dagsetningin er skráð og þar þarf einnig að koma fram á hvaða fyrirtæki hefur verið skorað. Eiríkur segir að upplesturinn megi ekki taka lengri tíma en 2-5 mínútur. „Við vonum að fyrirtæki á Suðurnesjum taki vel í verkefnið og að á hverjum þriðjudegi verði upplestur. Þetta verður uppbyggjandi skemmtun fyrir starfsfólk fyrirtækisins og einnig góð auglýsing fyrir viðkomandi fyrirtæki, því Víkurfréttir munu fylgja keðjulestrarbókinni eftir og gera grein fyrir hvar hún er og hvað lesið er í hverri viku. Bókinni á svo að skila þann 1. júní á næsta ári.”
Víkurfréttir taka að sjálfsögðu áskoruninni og valdi starfsfólk Pál Ketilsson ritstjóra til að lesa fyrir starfsfólk Sparisjóðsins í Keflavík í hádeginu næsta þriðjudag. Þá kemur í ljós hvað Páll mun lesa. Í framhaldinu mun Sparisjóðurinn þá skora á næsta fyrirtæki og starfsmaður Sparisjóðsins lesa fyrir starfsmenn þess fyrirtækis.
VF-ljósmynd/JKK: Eiríkur Hermannsson var með fimm mínútna upplestur fyrir starfsmenn Víkurfrétta í hádeginu á þriðjudag og er lesturinn upphaf lestraráskorunarinnar.