Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 11. desember 2001 kl. 09:44

Sköpunargleði á sjávarkambinum

Hver hefði trúað því að grár leirklumpur gæti orðið að fallegu handverki. Fimar hendur og hugmyndaflug er allt sem þarf. Á sjávarkambinu við Víkurbraut 1 í Grindavík er starfandi Handverkshúsið, Sjólist. Að sögn eiganda þess, Lindu Oddsdóttur, er markmið starfseminnar að veita sköpunargleði einstaklingssins útrás í notalegum félagsskap.
“Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér þessa aðstöðu geta greitt ársgjald en þá fá þeir lykil að húsnæðinu og geta haft sína hentisemi frá laugardegi til fimmtudags. Hinir, sem vilja bara koma einstaka sinnum greiða hins vegar ákveðið gjald í hvert sinn. Ætlunin er einnig að vera með lokaða hópa á föstudögum, t.d. saumaklúbba, vinnufélaga, eða bara vini og vandamenn“, segir Linda en rétt er að geta þess að þessi félagsskapur er ætlaður 18 ára og eldri og börnum er ekki heimilaður aðgangur.
Á næstunni mun Linda standa fyrir ýmsum námskeiðum sem verða auglýst nánar síðar. Þar á meðal er sérstakt námskeið fyrir unglinga 15-17 ára, glernámskeið, fjörgrjótsskreytingar og myndlistarnámskeið sem Reynir Katrínarson mun halda eftir áramót.
Linda hefur gaman af ýmis konar handverki og hefur fengist við eitt og annað í gegnum tíðina en hún hefur verið búsett í Grindavík sl. 16 ár. Hún hefur m.a. notið leiðsagnar Reynis Katrínar í myndlist og tekið þátt í nokkrum einka- og nemendasýningum auk þess hefur hún sótt námskeið í leirlist til Reykjavíkur. En hvað kom til að hún ákvað að opna vinnugallerí í Grindavík?
“Ég var orðin leið á að bíða eftir að einhver annar kæmi upp svona aðstöðu og ákvað að ríða á vaðið. Sjólist hefur fengið rosalega góðar viðtökur en fyrstu tvo dagana komu hingað um 80 manns. Þá var ég með hugmyndakassa þar sem fólk gat komið með tillögur að nafni á galleríið og nafnið Handverkshúsið Sjólist varð fyrir valinu. Við opnuðum formlega 23. nóvember og síðan þá hefur straumur fólks legið hingað á hverju kvöldi“, segir Linda.
Á efri hæð hússins, er nú notalegasta kaffistofa. Þangað getur fólk komið, tyllt sér niður og fengið sér ilmandi kaffi inn á milli þess sem nýjar hugmyndir skjóta upp kollinum. Ljúf jólatónlist líður um loftið og stemningin er verulega góð. Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um Sjólist geta haft samband við Lindu í síma 893-3712 eða 426-7165 .
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024