Sköpuðu sér atvinnu í sumar
Þær dóu ekki ráðalausar, ungu vinkonurnar sem blaðamaður hitti á íþróttavellinum í Vogum fyrr í vikunni. Í vor, þegar ljóst var að engin bæjarvinna yrði í boði fyrir 7. bekkinga, tóku þær til sinna ráða og sköpuðu sér verkefni í sumar.
Þær Hrafnhildur, Anna, Ólöf og Kolbrún höfðu allar lokið barnfóstrunámskeiði hjá Rauða Krossinum. Því lá beinast við að nýta sér þessa menntun svo þær tóku að sér að passa börn bæjarbúa frá kl. 13-16 daginn og hafa haft nóg að gera.
Þær hafa verið með börnin á íþróttasvæðinu við leik í sumar en hafa upp á að hlaupa aðstöðu innandyra í íþróttahúsinu ef veðrið er leiðinlegt.
Þetta kallar maður að bjarga sér.
---
VFmyndir/elg - Barnahópurinn naut veðurblíðunnar við leik í öruggri umsjá þeirra Önnu, Ólafar, Kolbrúnu og Hrafnhildar.