Skóladagur í Garði um næstu helgi
Skóladagur verður haldinn í Garði næstkomandi laugardag, en þessi atburður er haldinn í tilefni af 100 ára afmæli Sveitarfélagsins Garðs.
Þann dag munu skólarnir þrír, Leikskólinn Gefnarborg, Gerðaskóli og Tónlistarskóli Garðs, halda sýningu á verkum nemenda og vera með ýmsar aðrar uppákomur og eru allir bæjarbúar og gestir þeirra velkomnir. Hápunktur dagsins verður þegar Grænfáninn verður dreginn að húni bæði í Gerðaskóla og Gefnarborg.
Í fréttatilkynningu segir að þessi uppákoma sé lýsandi dæmi um góða samvinnu milli skólanna, sem nái til margra þátta skólastarfsins. Verk nemenda frá Gerðaskóla voru unnin á þemadögum skólans fyrir skemmstu og fjalla um lífið í Garði fyrir 100 árum.
Þess má geta að Gerðaskóli er enn eldri en sveitarfélagið því að nú er 135. starfsári hans að ljúka.
Mynd: 10-HH í Gerðaskóla ásamt kennurum sínum fyrr og nú.