Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Skokkað með kyndil yfir Golden Gate Bridge
  • Skokkað með kyndil yfir Golden Gate Bridge
Laugardagur 26. desember 2015 kl. 15:48

Skokkað með kyndil yfir Golden Gate Bridge

- fyrir Alþjóðaleika Special Olympics og gerður að heiðursborgara í Westminster í Kaliforníu

Alþjóðaleikar Special Olympics (íþróttir þroskahamlaðra) fóru fram dagana 25. júlí til 2. ágúst 2015 í Los Angeles í Kaliforníu. Tíu iðkendur úr röðum NES, íþróttafélags fatlaðra á Suðurnesjum, tóku þátt í leikunum ásamt 32 öðrum keppendum frá Íslandi. Fyrir leikana fór fram Law Enforcement Torch Run for Special Olympics eða kyndilhlaup lögreglumanna fyrir Special Olympics (LETR). LETR eru alþjóðleg samtök lögreglumanna sem hafa tekið það að sér að hlaupa með Olympíulogann fyrir sumar- og vetrarleika Special Olympics, hvort sem það eru Alþjóðaleikar eða Evrópuleikar. Tilgangurinn er að auka almenningsvitund um Special Olympics og afla styrkja fyrir samtökin og hefur LETR safnað yfir 560 milljónum dollara fyrir samtökin sem hefur gert LETR að stærstu regnbogasamtökum heims fyrir Special Olympics.



Guðmundur Sigurðsson er rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hann hefur verið að innleiða kyndilhlaupið hjá lögreglunni á Íslandi síðustu ár. Guðmundur er jafnframt fyrrverandi formaður NES og faðir iðkanda sem tók þátt í Special Olympics. Guðmundur tók þátt í kyndilhlaupinu fyrir sumarleikana í Los Angeles sem hófst 13. júlí og lauk þegar 115 lögreglumenn og 10 Special Olympics iðkendur frá 48 ríkjum Bandaríkjanna og 24 löndum víðs vegar um heiminn, þar af 11 Evrópuríkjum, báru Olympíulogann inn á opnunarhátíð Alþjóðaleikanna þann 25. júlí í Memorial Colliseum í Los Angeles. Á þessu tímabili bar lögreglan logann inn í 118 borgir og bæi í Kaliforníu og byrjaði í Sacramento.  Þessir Alþjóðaleikar Special Olympics voru stærsti íþróttaviðburður heims á þessu ári og stærsti einstaki íþróttaviðburður í Los Angeles síðan Olympíuleikarnir voru haldnir þar árið 1984. Alls tóku þátt í leikunum 7000 keppendur frá 177 löndum, þar af 41 keppandi frá Íslandi.



„Það var ótrúlega gefandi að taka þátt í þessu verkefni. Það komu mikið af Special Olympics keppendum á atburðina sem voru 5-6 á hverjum degi og margir voru með verðlaunapeningana sína til að sýna okkur. Þau voru svo þakklát að við skyldum vera að vekja athygli á þeim. Það eru ekki til ljúfari, einlægari, heiðarlegri og jákvæðari keppendur en í Special Olympics. Þar er ekki aðalmálið að sigra andstæðinginn heldur frekar að sigrast á eigin takmörkunum, fara á sínum hraða og með sínum hætti. Um keppendur Special Olympics spyrjum við ekki hvernig við getum hjálpað þeim heldur hvernig þau geta hjálpað okkur. Við getum lært mikið af þeim,“ segir Guðmundir í samtali við blaðamann.

– Að hlaupa með kyndil í yfir 100 borgir og bæi hefur verið talsvert fyrirtæki. Hvernig fór þetta fram?
„Kyndilhlaupið í Kaliforníu gekk vel fyrir sig og var með þeim hætti að okkur var ekið í rútu um 1-2 km frá miðbæ viðkomandi borgar eða bæjar. Við skokkuðum svo í miðbæinn í tveimur röðum og lögreglumaður og Special Olympics iðkandi í fararbroddi með kyndilinn. Í miðbænum var ávallt vel tekið á móti okkur og alltaf haldnar ræður þar sem sagt var frá upplifun af samsstarfi lögreglunnar við Special Olympics og svo var skipst á gjöfum. Ég var t.d. með ræður á tveimur stöðum, Palm Springs og Westminster. Að ræðuhöldum loknum blönduðumst við í hópinn og ræddum við fólkið og að endingu röðuðum við okkur aftur upp, skokkuðum 0.5-1 km upp í rútuna aftur og héldum á næsta stað og svo koll af kolli dagana 13.-25. júlí.”.



- Hvernig móttökur voruð þið að fá þar sem þið komuð?
„Það var mikið um að vera á hverjum degi og margir iðkendur Special Olympics á hverjum stað ásamt fólki sem vildi leggja málstaðnum lið og var lögreglulið og slökkvilið þar ekki undanskilið. Strax á fyrsta degi í borginni Novato hafði lögregla og slökkvilið raðað bifreiðunum í göng, þar var lúðrasveit, dansað og fimleikasýning og í San Rafael hafði lögregla og slökkvilið gert það sama. Í Oakland tók hluti af fótboltaliðinu á móti okkur og það sama gerðist í San Francisco þegar við fórum á heimavöll San Francisco 49ers en á þessum velli verður spilaður Super Bowl 2016. Eitt af eftirminnilegustu augnablikunum var þegar við skokkuðum með kyndilinn yfir Golden Gate Bridge í San Francisco. Það vakti gríðarlega athygli og mikið fjallað um það, lögreglubátar undir brúnni og fréttaþyrlur fyrir ofan brúnna, í framhaldinu fórum við með lestarvögnum á bryggjuna Pier 39 með Alcatraz í bakgrunninum og heljarinnar hátíðarhöld á bryggjunni. Á Union Square í San Francisco tók 40 manna sinfóníuhljómsveit á móti okkur.“



- Hvað var eftirminnilegast frá Kaliforníuferðinni?
„Fyrir mig persónulega voru tvö eftirminnileg atvik. Annars vegar þegar mér var afhentur lykill að borginni Westminster í Kaliforníu en það atvikaðist þannig að ég hélt ræðu um Sigga son minn, slysið sem hann varð fyrir og hvernig aðstæður leiddu hann til Special Olympics og hvað Special Olympics gerði fyrir hann. Það urðu allir snortnir af sögunni og þegar ég var að ræða við borgarstjórann eftir athöfnina tók hann þá ákvörðun að færa mér lykil að borginni, rauk inn í þinghúsið, sótti lykil og afhenti hann mér síðan með viðhöfn. Það var gríðarlegur heiður sem mér var sýndur með þessu og er ég því núna heiðursborgari í Westminster í Kaliforníu. „Thank you very much.“ Hins vegar er eftirminnileg athöfnin á síðasta deginum þegar ég hljóp með kyndilinn inn á Santa Monica Pier í Los Angeles og eiginkona mín og tveir synir voru þar ásamt fleirum Íslendingum veifandi íslenska fánanum og voru vitni að því sem ég var búinn að vera að gera í 12 daga.“

Guðmundur segir að honum sé mikið í mun að vekja fólk til umhugsunar um hvað Special Olympics standi fyrir. „Þá á ég við hvaða áhrif við getum haft til að efla það, gera það sterkara því það er vissulega þörf fyrir það. Ég á sjálfur tvo drengi sem eru iðkendur í Special olympics, ég hef verið með LETR hlaup á Íslandi meðal íslenskra lögreglumanna og það eru margir sem vita ekki út á hvað þetta brölt gengur, að hlaupa eitthvað með kyndil en eftir að hafa upplifað hvaða áhrif þetta hefur fyrir Special Olympics þá er þetta þess virði. Ef þetta verður til þess að einhver byrjar í íþróttum hjá Special Olympics vegna LETR þá dugar það mér,“ segir Guðmundur Sigurðsson. Hann var á dögunum sæmdur Hvataverðlaunum Íþróttasambands fatlaðra fyrir árið 2015 vegna LETR í þágu fatlaðra. Þetta er í 3. skiptið sem þessi verðlaun eru afhent, t.d. fékk KSÍ þessi verðlaun 2014.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024