Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Skoða Hrekkjavökuhugmyndir á Pinterest
Fimmtudagur 27. október 2016 kl. 15:31

Skoða Hrekkjavökuhugmyndir á Pinterest

-Skreytingar, góðgæti, búningar og andlitsfarðanir

Hrekkjavakan er á næsta leiti, eða 31. október, og ekki seinna vænna að fara að huga að skreytingum og ógnvekjandi búningum. Undanfarin ár hefur þessi bandaríski siður notið vaxandi vinsælda á Íslandi og hafa nokkur hverfi á Suðurnesjum gert „grikk eða gott“ að árlegum sið. Þá skreyta þeir sem vilja taka þátt innganginn með logandi kertaljósum, oft í útskornum graskerjum og öðru draugalegu skrauti og börnin ganga í hús, bjóða grikk eða gott og fá sælgæti eða annars konar góðgæti.

María Sigurðardóttir, íbúi í Heiðarhverfinu í Reykjanesbæ, segir þetta mikla fjölskylduskemmtun og vonar að sem flestir taki þátt og sleppi sínu innra barni lausu í skreytingum og gleði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það hefur lengi blundað vilji hjá okkur vinkonunum að halda Hrekkjavöku í hverfinu okkar en einhvern veginn varð ekkert úr því. Það var ekki fyrr en vinkona okkar, hún Svava Ósk, flutti í hverfið til okkar úr Innri Njarðvík að hugmyndin varð að veruleika. Þessi hátíð hefur verið haldin í Innri Njarðvík í nokkur ár með mikilli þátttöku og kátínu á meðal barnanna. Við vinkonurnar höfum verið að fara til þeirra eða upp á Ásbrú með börnin okkar til að taka þátt í þessari gleði. En svo ákváðum við Svava og Þóra Kristín að hittast og skipuleggja svona viðburð í Heiðarhverfinu.

Eftir að við bjuggum til viðburðinn og settum hann á Facebook þá hefur mikil umræða farið af stað í kringum okkur. Til mikillar ánægju þá er þáttakan svakalega góð og tala margir um að skreyta heimilin sín, halda hrekkjavökupartý og klæða sig upp í tilefni dagsins. Við vonum bara að sem flestir taki þátt og sleppi sínu innra barni lausu í skreytingum og gleði,“ segir María.

Hvað finnst þínum börnum um Hrekkjavökuna?
„Það er mikil gleði á heimilum okkar vinkvennanna. Það eru allir þátttakendur í gleðinni, ungir sem aldnir. Hér er legið á Pinterest að skoða skreytingar, góðgæti, búninga og farðanir. Þetta er mikil fjölskylduskemmtun. Enda var það tilgangurinn með þessum viðburði, að útbúa góða fjölskylduskemmtun,“ segir María að lokum.