Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Skoða betur eigin ákvarðanir
    Særún Rósa Ástþórsdóttir.
  • Skoða betur eigin ákvarðanir
Sunnudagur 9. nóvember 2014 kl. 09:00

Skoða betur eigin ákvarðanir

MSS Innleiðir aðferðir til hjálpar brotthvarfsnemendum.

Særún Rósa Ástþórsdóttir, verkefnastjóri hjá MSS, vinnur að innleiðingu á aðferðum til hjálpar brotthvarfsnemendum. Aðferðirnar lærði hún í Frakklandi og fékk þjálfun m.a.í gegnum Skype. Stefnt er að því að vinna með sem flestum menntastofnunum á Suðurnesjum.



„Innleiðingin gengur út á samskiptaaðferð, kennsluaðferð frá skólanum og kennslumyndbönd. Gengið er út frá því að virkja styrkleika einstaklinga, færa þeim ný verkefni, nýjar áskoranir og þeir eru spurðir að því hvað þeir vilja sjálfir gera. Það er n.k. matskerfi á því hvar erfiðleikarnir liggja og hvernig er hægt að mæta þeim til að ná árangri,“ segir Særún Rósa Ástþórsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, en MSS vinnur að innleiðingu á aðferðum til hjálpar brotthvarfsnemendum. „Þetta kom til með þeim hætti að kennari hjá okkur hitti konu frá Frakklandi sem hefur verið að vinna með brotthvarfsnemendur og hún benti henni á okkur og MSS var boðið í samstarf með menntastofnunum frá sex öðrum löndum. Þetta passaði vel við okkar starfsemi vegna þess að við erum m.a. að vinna með brottfallsnemendum,“ segir Særún. Starfsfólk MSS sé ætíð móttækilegt fyrir nýjum aðferðum til að takast á við námserfiðleika.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Sjái eigin þátt í ákvarðanatökum
Hlutverk MSS í verkefninu er í raun að deila reynslu sinni og stöðu brotthvarfsnemenda hér á landi og innleiða aðferðirnar sem unnið er með í Frakklandi. Þetta er viðamikið verkefni sem tekur tvö ár. „Við erum búin að fara nokkrum sinnum til mismunandi landa. Ég fór í einstaklingsþjálfun í gegnum skype og svo unnum við nánar með aðferðina á vinnufundunum úti. Aðferðin gengur út á það að einstaklingur átti sig á eigin hlutverki í ákvarðanatöku. Þegar ég bregst við einhverju þá er ég gerandi í því og hef áhrif á gang mála. Ef mig langar að mennta mig eða klára einhverja gráðu þá hafa mínar gjörðir og aðferðir alltaf áhrif á hvort mér tekst það eða ekki; hvort ég færist nær markmiðinu eða hvort ég hef fjarlægst það. Þetta á við allt frá börnum til fullorðinna. Það er hægt að nýta þetta í starfi og persónulegu lífi. Þetta eru aðferðir sem fá mann til að horfa dálítið á sjálfan sig úr fjarlægð og skoða hvaða áhrif samskiptaleiðir mínar hafa á lífið og þróun þess.“

Fá stuðningstæki- og tól
Særún segir að oft rekist brotthvarfsnemendur á veggi, t.d. í samskiptum eða nái ekki að passa inn í „normið“ og rammann sem sé settur fyrir þau. „Þeir átta sig kannski ekki á því hvað er rétt og rangt og svo er spurning hvort félagslegur stuðningur sé til staðar. Ef við tökum dæmi um eitt afmarkað atvik, t.d. að verið sé að ræða við nemenda sem er að falla á mætingu í einhverju fagi. Þá myndum við fá þann nemanda til að horfa á það að hann fór úr tíma og kom ekki aftur, spyrja hann hvað hann var að gera þá, hvernig leit það út fyrir honum.“ Þá komi kannski fram einhverjar tilfinningar og útskýringar sem hægt sé að greina. „Þegar einhver ákveður að mæta ekki í skólann þá er ekki bara hægt að segja að kennarinn sé ömurlegur, námið leiðinlegt eða aðrar afsakanir, heldur ákvað viðkomandi að mæta ekki. Ákvörðunin getur alveg verið réttmæt en það þarf að átta sig á eigin þætti,“ segir Særún og bætir við að hugmyndin með verkefninu sé einnig sú að fagaðilarnir, foreldrar og stuðningsnet fái betri tæki og tól til þess að skoða sín eigin samskipti gagnvart viðkomandi og hjálpa þeim að skoða eigin ákvarðanatöku. „Kennari sem setur sig í dómarasæti gagnvart nemanda hefur einnig áhrif á aðstæður.“

Komin með ráðgjafa í stýrihóp
Særún hefur fengið þjálfunina sem þarf til og er að þjálfa innan MSS félagsráðgjafa í aðferðinni. „Við viljum dreifa þessu út. Þetta snýst um að við innleiðum og miðlum. Við horfum á Suðurnesin sem okkar starfsvæði sem við getum haft áhrif á og viljum í raun fá í lið með okkur fagfólk á öllum stigum innan menntageirans. Við erum komin með nokkra ráðgjafa í stýrihóp og horfum til menntastofnana á svæðinu. Þetta er viðfangsefni sem snertir okkur í raun alla ævina. Við þurfum að grípa miklu fyrr inn í. Þetta er mikil áskorun og erfitt að sjá fyrir hversu mikil áhrif þetta á eftir að hafa en það er þess virði að láta á reyna.“ Meðfram þjálfuninni verði búin til verkfærakista. Þeir sem vilji tileinka sér aðferðirnar hafi aðgengilegt efni þannig að þeir geti farið skref fyrir skref í gegnum hana. „Í Svíþjóð verða framleidd myndbönd með aðferðunum í samráði við hin þátttökulöndin í verkefninu. Þannig að flestir geta nýtt sér þetta í starfi og vinnuumhverfi,“ segir Særún og bætir við að hluti af verkefninu sé svokallað „testing phase“ þar sem aðferðin verður kynnt fyrir stærri hóp fagaðila sem vinna með brotthvarfsnemendum. Þá gefst færi á að prófa aðferðina og verkfærin spennandi verði að sjá hver útkoman verður. Særún hvetur áhugasama fagaðila til að hafa samband við sig í netfangið [email protected].

VF/Olga Björt.