Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skíthræddur og rosalega feiminn
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 27. apríl 2020 kl. 23:03

Skíthræddur og rosalega feiminn

Garðar Gæi Viðarsson er einn kunnasti snappari landsins. Hann hefur verið duglegur að halda fylgjendum sínum við efnið á Snapchat síðan síðla árs 2016. Nú ætlar Gæi að fara skrefinu lengra og skella sér í Podcast eða hlaðvarp á föstudagskvöldum. Í samtali við Víkurfréttir segist Garðar alltaf hafa átt sér þann draum að vera með eigin þátt og hann sé nú að verða að veruleika. Hann segist reyndar vera skíthræddur við það sem hann er að fara útí.

„Við ætlum að vera með glens- og grínþátt, Podcast í hljóði og mynd, þar sem við fáum gesti í stúdíó og förum og heimsækjum fólk með myndavélina með okkur,“ segir Garðar í samtali við Víkurfréttir í netspjalli sem horfa má á og hlusta í spilara hér á síðunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Er þetta tekið upp fyrirfram eða verður þetta í beinni útsendingu?

„Við ætlum að reyna að hafa þetta „live“ en ætlum að byrja að taka upp og raka saman efni í þætti og fara svoleiðis af stað.“

„Litla dæmið“

Garðar Gæi byrjaði á þriðjudag í síðustu viku að taka upp efni í fyrsta þáttinn. Stefnt er að því að frumsýna fyrsta þáttinn, sem fengið hefur nafnið „Litla dæmið“, á föstudaginn,  1. maí. Nafnið á þættinum er vísun í frasa sem Garðar notar oft í færslum sínum á Snapchat.

– Hverju má fólk eiga von á?

„Þetta verður á föstudagskvöldum þannig að þetta verður létt á bárunni. Ég ætla bara að vona að þetta verði ógeðslega skemmtilegt og áhugavert og eigi eftir að slá í gegn. Við erum ekki með neina dagskrá en þetta verður mikið til bara grín og fíflagangur. Áhugavert fólk, sögur og ýmislegt.“

Litla dæmið sækir ekki bara viðfangsefni sín til Suðurnesja heldur verður sótt á stærri mið. Þó er búið að leggja drög að nokkrum stórum viðtölum sem flest eru við fólk af Suðurnesjum.

– Verður þetta eitthvað óþægilegt?

„Já, já. Maður verður að ganga frá þessu þannig að þetta verið spennandi og skemmtilegt og þá verður maður að vera óþægilegur á köflum líka.“

Það verða engir ógeðsdrykkir eða dónaskapur segir Garðar Gæi. Þetta verði allt að hinu góða. „Ekkert ves.“ Hann segir að í þættinum verði skemmtilegir og áhugaverðir viðmælendur, vígalegur spurningalisti. „Þetta er svolítið á teikniborðinu hjá okkur ennþá en við erum að hjóla af stað og erum svolítið að fara blindandi út í þetta og reyna að gera allt sem okkur dettur í hug.“

– Hvernig léstu hafa þig út í Podcast? Þú ert nú frægur af öðrum vettvangi.

„Mig hefur alltaf langað að vera með minn eigin þátt og það fæðast reglulega hugmyndir hjá mér sem væri gaman að koma frá sér og í verk.“

– Þetta er öðruvísi miðill en Snapchat.

„Já, þetta er allt, allt annað. Þetta er öðruvísi en þetta verður gaman. Það er gaman að prófa eitthvað nýtt.“

Rosalega feiminn

– Og þú ert alveg óhræddur við þetta?

„Nei, ég er skíthræddur við þetta. Ég er rosalega feiminn. Í þessi skipti sem ég kem fram þá er ég alltaf svakalega kvíðinn og bara blautur í lófunum. Jafnvel svefnlaus og „alles“. Þetta hefur alveg stórkostleg áhrif á mig. Ég hef mikið fyrir þessu en maður hlýtur að slípast til og sjóast í þessu eins og öðru. Ég trúi ekki öðru þegar maður fer að gera þetta annað slagið að þá hlýtur maður að koma til á endanum.“

Garðar Gæi byrjaði á Snapchat í árslok 2016 og hefur verið nær daglegur gestur á Snapchat-reikningum þúsunda fylgjenda síðan þá. Hann reynir að „snappa“ á hverjum degi. Það komi þó fyrir að verði messufall en aldrei í marga daga. Þá eru dagarnir misjafnir. Stundum sé rólegt en aðra sé nóg að gera á snappinu. „Ég hef tekið pásur en þær hafa ekki verið langar. Ég hef alltaf eitthvað fram að færa,“ segir Garðar Gæi. Hann vistar eitthvað af því sem hann lætur frá sér fara á Snapchat og geymir hjá sér en annað lifir bara í sína 24 tíma og hverfur svo sjónum manna.

Á það til að verða stjórnlaus

– Sérðu aldrei eftir neinu?

„Jú, jú, það kemur oft fyrir. Það er oft sem maður vaknar og er bara ooooh,“ segir hann og hlær.

– Er það eitthvað sem gerist eftir þriðja eða fjórða bjór?

„Já, ég á það til að vera alveg stjórnlaus þegar ég er að hella í mig, fara yfir strikið jafnvel. Þegar ég hef grun um eitthvað svoleiðis þá er ég ekkert að fara yfir hlutina. Þá er betra bara að vera ekki viss.“

– Ætlar þú að hella í viðmælendur? Er það einhver hugmynd?

„Já, já. Við ætlum að grilla og bjóða upp á öl. Þetta verður ekki „hard core“ svoleiðis neitt en það verða veitingar, já, já.“

Garðari hlakkar til að negla fyrsta þættinum út í kosmosið og sjá hvað fólki finnst. Hann segir stefnuna að gera þáttinn góðan og skemmtilegan og að hann stimpli sig vel inn. Þátturinn verður aðgengilegur á fésbókinni og verður sendur út á síðu Studio Kast.