Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skipulagt að hárkollan fyki í lok tónleikanna
Föstudagur 5. september 2003 kl. 14:08

Skipulagt að hárkollan fyki í lok tónleikanna

-segir Leoncie sem kemur fram á Ljósanótt í kvöld

Söngkonan Leoncie mun koma fram á tónleikum á útisviðinu á Hafnargötunni klukkan 20:55 í kvöld í tilefni Ljósanætur. Þar mun Leoncie flytja nokkur lög af væntanlegum geisladiski sem ber nafnið „Radio Rapist - Wrestler” sem kemur út eftir nokkrar vikur.

Hvað geturðu sagt okkur um nýja diskinn þinn, Radio Rapist - Wrestler?
Það eru 13 lög á disknum, en ég vil ekki segja neitt um lögin áður en diskurinn kemur út. En ég get sagt að á disknum verður eitt mjög skemmtilegt lag á íslensku.

Hvenær á diskurinn að koma út?
Eftir nokkrar vikur.Flyturðu einhver lög af nýja disknum á tónleikunum á Ljósanótt?
Já að sjálfsögðu, t.d. titillagið og annað lag sem heitir Killer in the park. Þetta verður algjör bomba.

Hefurðu verið að koma mikið fram upp á síðkastið?
Já, ég kem reglulega fram en ég held ekki svo marga tónleika. Hinsvegar er ég töluvert að skemmta. Það er sko alveg nóg að gera hjá mér. I am very special, you know! Ég er nýkomin erlendis frá og er á leiðinni út aftur á næstunni þar sem ég mun ræða við nokkur plötufyrirtæki sem sýnt hafa disknum mínum áhuga og vilja gera við mig plötusamning. En ég vil ekki skrifa undir hvaða samning sem er.

Þú ert þá bara að skoða málin?
Já ég er bara að skoða málin, en vonandi verður þetta komið á hreint í desember.

Hvernig líst þér á Ljósanótt?
Ó, þetta er frábært. Síðasta Ljósanótt var frábær, en þessi verður ennþá betri.

Hvað geturðu sagt um atvikið sem gerðist á Ljósanótt í fyrra þar sem þú dast á sviðinu og misstir hárkolluna?
Þú verður að birta þetta svar því ég vil koma þessum upplýsingum á framfæri. Ég skil ekki af hverju örfáir strákbjánar hafa áhuga á hárinu á mér, brjóstahaldaranum og skónum. Af hverju er ekki í lagi að ég sé blond eða hvað? Þetta eru bara nokkrir strákbjánar sem eru alltaf að hugsa um hárið á mér, brjóstahaldarann minn og háhæluðu skóna mína. Látið mig vera - ég klæði mig eins og mér sýnist og ég segi við þetta fólk: to hell with everybody!

En þú varst með hárkollu á tónleikunum sem þú misstir?
Þetta var allt skipulagt því ég vildi hafa lok tónleikanna stórkostlega.

Verðurðu þá með eitthvað svona núna - eitthvað stórkostlegt í lok tónleikanna?
Við skulum sjá til. Síðasta Ljósanótt var frábær. Ég ætlaði að detta niður á tónleikunum og missa hárkolluna og svona. Mér fannst það frábært því ég vil láta fólk hlæja. Fólk er stundum svo dapurlegt og ég vil koma því í gott skap. I am a comedian you know!


VF-ljósmynd: Leoncie á sviði á síðustu Ljósanótt.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024