Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Skiptir ekki máli af hverjum þú hrífst
Föstudagur 28. apríl 2017 kl. 06:00

Skiptir ekki máli af hverjum þú hrífst

Ósk Matthildur fræðir almenning um það að við séum öll jöfn

Snapchat aðgangurinn Hinseginleikinn hefur hlotið gríðarlega athygli síðustu mánuði, en Hinseginleikinn er fræðsluvettvangur hinsegin fólks á landinu sem leyfir almenningi að fylgjast með sínu daglega lífi og fræðast. Ein þeirra er Sandgerðingurinn Ósk Matthildur Arnarsdóttir, en hún kom út úr skápnum fyrir nokkrum árum síðan þegar hún kynntist kærustu sinni.

Hún segir það hafa verið erfitt í svona litlu samfélagi að koma út úr skápnum og að það hafi tekið hana mörg ár að sætta sig við það hver hún væri. „Þetta var ógeðslega erfitt og sérstaklega því ég var mikið í félagslífinu. Ég heyrði helling af kjaftasögum um mig. Þetta var bara komið út í eitthvað rugl á tímabili. Ég held að tvítug stelpa, sem væri að koma út úr skápnum í dag, myndi aldrei fá á sig þann stimpil sem ég fékk. Þetta var allt svo klámvætt af fólki. Það var það sem mér fannst erfiðast við þetta allt saman.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ósk og kærasta hennar, Carmen Tyson-Thomas, hafa verið með Snapchat aðgang Hinseginleikans í tvö skipti núna og segir Ósk mikinn mun á spurningunum sem þær fengu sendar í hvort skiptið. „Í fyrra skiptið, sem var fyrir um það bil ári síðan, fengum við spurningar þar sem fólk vissi minna um þetta og fattaði kannski ekki alveg að það væri að spyrja mjög óviðeigandi spurninga, eins og hvor okkar væri karlinn í sambandinu og hvernig við stunduðum kynlíf. En svo núna var fólk meira að spyrja okkur hvernig best væri að koma út úr skápnum og ýmislegt tengt því. Þetta er búið að fræða fólk mjög mikið. Þessi aðgangur sýnir fólki að við erum bara alveg eins og allir aðrir.“

Henni finnst að fræðslan á Suðurnesjum mætti vera meiri en segir þó mikinn mun á viðhorfi fólks frá því hún sjálf kom út úr skápnum. „Fólk er ekki jafn vandræðalegt og þegar ég var að koma út úr skápnum. Þá notaði fólk orðið „vinkona“ því það þorði ekki að segja „kærasta“. Ég fékk mikið að heyra það að ég liti ekki út eins og lesbía. En eiga lesbíur að líta einhvern veginn öðruvísi út?”

Ósk segist ekki þurfa að skilgreina sig eftir því hverjum hún hrífist af en í dag er hún ástfangin af og í sambandi með stelpu. „Það er skrýtið að maður þurfi alltaf að uppfylla þarfir annarra og skilgreina sig í einhvern ákveðinn flokk bara af því að aðrir ætlist til þess af manni. Ég heillast bara af persónuleikanum. Svo er allt annað sem fylgir bara bónus.“

Í dag er talað um Reykjavík Pride, en ekki Gay Pride eins og það var áður kallað, en Ósk vonast til þess að einn daginn munum við hætta að tala um fólk sem hinsegin. „Við erum ekkert hinsegin, við erum bara venjuleg. Ég er ekkert hinsegin af því ég er skotin í stelpu, rétt eins og ég er ekkert hinsegin af því ég er dökkhærð.“

Ósk tók saman spurningar sem hún er spurð að í sínu daglega lífi varðandi það að elska aðra stelpu. „Ég fæ alls konar spurningar og athugasemdir frá fólki. Að ég sé of kvenleg til þess að vera lesbía, hvort ég sé ekki bara að ganga í gegnum eitthvað tímabil og hvort ég nái að haga mér í sturtuklefanum í sundi. Ég hlæ bara í andlitið á fólki. Ég hef verið spurð hvort ég hati karlmenn og hvort ég hafi verið misnotuð af karlmanni. Það tengist þessu bara ekki neitt. Hjartað mitt varð bara hrifið af stelpu.“


Ósk ásamt kærustu sinni Carmen.

 

Nokkrum sinnum hefur það gerst að Ósk hafi verið boðin hjálparhönd frá karlmönnum sem segjast tilbúnir til þess að „snúa henni á einu kvöldi“, eins og það hefur verið orðað. „Eins og þeir séu með einhvern töframátt. Ég veit hver ég er. Ég þarf ekki að prófa eitthvað annað. Ég hef engan áhuga á því að fólk reyni að snúa mér eða breyta mér. Ég vil það ekki,“ segir hún.

Hún segist einnig lenda reglulega í því að fólk spyrji sig og kærustu sína um kynlífið þeirra og að lesbíur séu oft beðnar um að sanna það fyrir öðrum að þær séu lesbíur. „Af hverju ætti ég að vera að ljúga því? Þessir einstaklingar myndu örugglega aldrei labba upp að gagnkynhneigðu pari og biðja þau um að sanna að þau væru saman eða forvitnast um kynlífið þeirra. Ég er ekkert meira opin fyrir því að ræða mitt kynlíf bara af því að ég er lesbía, frekar en einhver annar. Þetta eru algjörir fordómar.“

Ósk ráðleggur fólki sem er að koma út úr skápnum að byrja á því að sætta sig við þetta sjálft. „Þegar þú býrð í litlu samfélagi er oft mikið erfiðara að koma út því fólk mun tala. En fólk mun alltaf tala og hafa skoðun á því sem þú ert að gera í lífinu. Maður þarf bara að loka á það og leyfa fólki bara að hugsa það sem það vill hugsa. Það skiptir ekki máli af hverjum þú hrífst. Ef þú ert hræddur um að einhver dæmi þig fyrir það, þá er það bara manneskja sem þú villt ekki hafa nálægt þér. Einhver sem er bara fáfróður og þarf að læra meira um þetta. Við erum öll svo ólík en samt erum við svo lík. Við erum öll jöfn, sama hvernig við komum í þennan heim.“

[email protected]