Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Skipti miklu máli að Njarðvík ynni róðrakeppnina
Sunnudagur 22. desember 2019 kl. 08:34

Skipti miklu máli að Njarðvík ynni róðrakeppnina

Hulda Karen Daníelsdóttir segir að sjómannadagurinn hafi skipað stóran sess í lífi hennar þegar hún var ung kona í Keflavík. Mestu máli hafi skipt hverjir unnu róðrakeppnina.

„Sjómanndagurinn var einn mikilvægasti dagur ársins í huga mínum þegar ég var barn á Þórustígnum í Ytri Njarðvík. Hann var mikilvægari en sumardagurinn fyrsti, 17. júní og jafnvel páskarnir. Á sjómannadaginn vaknaði ég alltaf eldsnemma og gáði hvort búið væri að koma appelsínugulu belgjunum fyrir í sjónum en þeir mörkuðu hve langt kappróðrarbátarnir áttu að sigla í keppninni sem fram fór eftir hádegi. Fiðringur og spenna einkenndu líðan mína og fljótlega eftir hádegi var haldið til Keflavíkur því þar fóru hátíðahöldin fram. Í mínum huga var róðrarkeppnin mikilvægust. Mér var nokk sama hverjir sigruðu stakkasundið eða koddaslaginn, öllu máli skipti að Njarðvík sigraði róðrarkeppnina. Meðan á róðrarkeppninni stóð kölluðum við krakkarnir viðstöðulaust: „Áfram Njarðvík! Áfram Njarðvík!,“ eins og lífið sjálft lægi við. Stundum unnum við erkióvininn, róðrarsveit Keflavíkur, en stundum ekki,“ segir Hulda Karen Daníelsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Blómakrans til minningar um sjómenn

„Ég man sérstaklega vel eftir sjómannadeginum þegar róðrarsveit Njarðvíkur fleytti blómakrans út á hafið til minningar um þrjá frændur mína sem drukknað höfðu veturinn áður. Allir báru ræðararnir svart sorgarband um upphandlegginn. Róðrarsveit Njarðvíkur tapaði það ár og kom það svo sem engum á óvart því sorgin grúfði yfir ræðurunum.

Maður upplifði nokkurs konar spennufall þegar hátíðahöldin voru yfirstaðin. Þá var ekki annað að gera en að rölta í Nýja bíó eða koma við á Ísbarnum til að kaupa sér ís eða annað sælgæti. Síðan var haldið heim, annað hvort með „bössinum“ eða fótgangandi.“

Sakna hátíðarhalda á sjómannadag

„Þegar ég flutti heim til Íslands eftir sautján ára búsetu í Winnipeg í Kanada komst ég að því, mér til mikillar undrunar, að ekki er lengur haldið upp á sjómannadaginn í Keflavík. Og svei mér þá ef ég fann ekki fyrir bæði söknuði og eftirsjá. Ég velti fyrir mér hvernig litla stelpan sem bjó á Þórustígnum í gamla daga hefði brugðist við þessum fréttum. Ég held að ef hún hefði hitt tímaflakkara á ferðalagi frá framtíðinni sem hefði sagt henni þessar fréttir, þá hefði hún sagt af fullkominni sannfæringu og án hiks; „Iss, eins og það geti skeð.“