Skiptar skoðanir um skreytingar á Hafnargötu
Nýjar skreytingar í miðbæ Reykjanesbæjar hafa vakið misjöfn viðbrögð hjá íbúum bæjarfélagsins. Undanfarið hefur ýmsum listaverkum og skreytingum verið komið fyrir á Hafnargötunni en sitt sýnist hverjum um útlit þessara hluta. Í spjallþræði á Facebook hefur fjöldi fólks tjáð sig um skreytingarnar og sköpuðust ansi fjörlegar umræðum um eitt listaverkanna. Þá var sérstaklega rætt um dekk sem standa á víð og dreif um Hafnatgötuna, en þau virðast ekki hitta í mark hjá öllum.
„Ég átti ekki til orð þegar ég sá þetta. Er enginn umhverfis fagurkeri starfandi hjá Reykjanesbæ. Maður er farinn að skammast sín fyrir umhverfið frekar en að njóta og vera stoltur,“ segir einn íbúinn við færsluna.
„Finnst pottarnir sjálfir ekkert ljótir, hefði mátt mála þá þess vegna og setja þá falleg blóm en ekki heysátur, finnst þetta sorglegt,“ bætti annar við.
„Þetta er skelfilegt. Hvað verður það næst? Hver er kostnaðurinn á bakvið þennann gjörning. Hvar er Blái herinn. Ekki nóg að fegra strandlengjuna og heiðarnar ef svo sorpinu er sturtað inn í miðjan bæ. Kalka er hér rétt hjá. Endilega koma þessu þar sem þetta á heima,“ voru ein ummælin.
Mörgum fannst þó mikið koma til dekkjanna og létu í ljós hrifningu sína á verkinu og sköpunargleðinni.
„Þetta er frábært verkefni, mjög gaman að rúnta Hafnargötuna og sjá þessa frumlegu hluti hér og þar,“ sagði einn jákvæður bæjarbúi.
„Ekki nema von að enginn nennir eða er viljugur að gera neitt í okkar blessaða bæ.
Það er allt skotið niður með neikvæðni Med Det Samme, þeir sömu koma pottþétt ekki með neinar hugmyndir. Einhverjir hér eru þó með uppbyggilega gagnrýni. Það ber að lofa.“
Þetta er alvöru sköpun... gaman að þessu.. Grasið vísar í gömlu torfbæina t.d og dekkið í hugmyndir um endurnýtingu hluta... svo er væntanlega hægt að fá sér sæti...allavega er ég að fìla þetta sköpunarverk.... meira af sköpun,“ segir einn ánægður íbúi.
Sitt sýnist þó hverjum en mynd af verkinu má sjá hér að ofan.