Heklan
Heklan

Mannlíf

Skipslúðrar þeyttir til heiðurs Ásgeiri
Ásgeir um borð í Óðni á dögunum. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 7. júlí 2023 kl. 06:37

Skipslúðrar þeyttir til heiðurs Ásgeiri

Forseti Íslands um borð í safnskipinu Óðni

Safnskipið Óðinn þeytti skipslúðra sína skammt undan landi neðan við Útskála í Garði á sunnudagskvöld. Óðinn var á leið sinni frá Reykjavík til Vestmannaeyja þar sem skipið var til sýnis í tilefni af goslokahátíð, en 50 ár eru liðin frá lokum eldgossins í Heimaey.

Ástæða þess að skipslúðrarnir voru þeyttir fyrir utan Garðinn var til að heiðra Ásgeir Magnús Hjálmarsson sem nýlega varð áttræður. Ásgeir er mikill safnamaður og er frumkvöðull að stofnun Byggðasafnsins á Garðskaga, auk þess að hafa komið upp sínu einkasafni í Garðinum. Tveir Garðmenn, þeir Ásgeir og Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður Víkur-frétta, voru á dögunum sérstakir gestir um borð í Óðni þegar áhöfnin hélt æfingu á Faxaflóa fyrir Vestmannaeyjaförina. Safnskipsmenn á Óðni vildu þar þakka þeim sitt framlag til safnamála. Ásgeir hefur m.a. safnað sjóminjum og Hilmar Bragi vann síðasta vetur að heimildamynd um björgunarafrek sem unnið var á Óðni fyrir aldarfjórðungi síðan í hafinu suður og vestur af Íslandi. Þess má til gamans geta að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var farþegi um borð í Óðni á sunnudagskvöld og fór með skipinu til Eyja. Ljósmyndirnar tók Hilmar Bragi af varðskipinu sem var prýtt forsetafánanum þegar það sigldi framhjá Garðinum.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

VF jól 25
VF jól 25