Skíðalyfta og vitar í jólaþorpi Togga og Auðar
Þorgrímur Hálfdánarson er mikill jólastrákur og lætur sig ekki muna um að koma upp jólaþorpi í stofunni heima hjá sér að Hólabraut 2 í Keflavík. Hann viðurkennir að honum finnist skemmtilegt að taka jólin snemma og segist vera að undirbúa sig leynt og ljóst allt árið.
„Jú, þetta tekur svolítinn tíma og kostar líka peninga en er sannarlega þess virði,“ segir Toggi og Auður Helga Benediktsdóttir, eiginkona hans tekur undir það. „Jú, jú, ég neita því ekki að þetta er sameiginlegt áhugamál hjá okkur. Svo hafa börnin okkar svo gaman að þessu,“ segir hún.
Þau hafa safnað jólamunum á síðustu árum en megnið er keypt í Byko eða í jólabúðinni á Selfossi. Einn af nýjustu hlutunum í jólaþorpinu er skíðalyfta en þegar Toggi var spurður hvort hann væri skíðamaður þá hló hann og sagði það af og frá. Hefði farið eina ferð þegar hann var unglingur.
Í Jólaþorpinu má sjá fallega vita sem lýsa upp þorpið. Coca Cola fær sitt auglýsingapláss í þorpinu og en myndarleg járnbrautarlest er merkt þessum þekkta drykk en okkar maður hefði frekar viljað hafa Pepsi á lestinni en fékk lítið við það ráðið. „Ætli ég haldi ekki mest upp á vitann með rauða ljósinu. Hann er ansi flottur þarna,“ sagði Toggi.
Jólaþorpið stendur á borðum og fleiri stoðum við stofugluggann en þetta er í fyrsta skipti sem þau hjónin setja upp þorp í heilu lagi, áður var því skipt niður á tvo staði í íbúðinni. En má ekki eiga von á því að fólk fari að kíkja á gluggann og kannski börnum í heimsókn? „Barnabörnin eru alla vega búin að koma og eiga eftir að koma aftur og aftur,“ sögðu þau Þorgrímur og Auður Helga sem sögðust ekki taka jólaþorpið niður fyrr en eftir þrettándann.