Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skessudagar í Reykjanesbæ um næstu helgi
Mánudagur 7. nóvember 2011 kl. 09:40

Skessudagar í Reykjanesbæ um næstu helgi


Skessudagar eru nú haldnir í þriðja sinn en markmið þeirra er að kynna fyrir íbúum og gestum Reykjanesbæjar þá staði og starfsemi sem stendur fjölskyldum og börnum að jafnaði til boða þeim að kostnaðarlausu. Um leið er hvatt til og stuðlað að notalegri samverustund fjölskyldunnar á oft umhleypingasömum haustdögum þegar gott er að vera innandyra. Eins og titill daganna ber með sér er markhópur Skessudaganna börn á fyrstu skólastigum þótt flestir geti vonandi fundið eitthvað við sitt hæfi.

Á dagskránni kennir ýmissa grasa. Skessan tekur alltaf vel á móti börnum og óskar eftir myndum og bréfum í póstkassann sinn. Viðurkenningar verða veittar fyrir skemmtileg bréf og myndir þegar ljósin á vinabæjarjólatrénu verða tendruð í byrjun desember.

Í Víkingaheimum gefst börnunum kostur á að klæða sig upp að hætti víkinga og þá er tilvalið fyrir foreldra að smella af myndum sem kannski geta ratað í jólakortið í ár. Á sunnudeginum verður boðið upp á mjög skemmtilega smiðju í samstarfi við Einstaka, félag handverksfólks, þar sem börn geta útbúið sitt eigið rúnahálsmen og tekið með sér heim.

Fólk er einni g hvatt til að líta við á Byggðasafni Reykjanesbæjar í Ramma við Seylubraut þar sem opnuð verður farandsýningin Ekki snerta jörðina en hún fjallar um leiki 10 ára barna í samtímanum. Meðal þátttakenda í þessari samtímasöfnun voru nemendur úr Holtaskóla sem nú eru í 7. bekk. Til viðbótar þessu verða til sýnis munir og minjar úr fórum safnsins sem tengjast börnum.

Í Duushúsum stendur gestum til boða að taka þátt í ratleik í Bátasafni Gríms Karlssonar. Dregið verður úr réttum lausnum og verðlaun veitt síðar. Í Bíósal stendur yfir grafíksýningin Óvættir og aðrar vættir þar sem m.a. má finna verk eftir nemendur úr Myllubakkaskóla sem tóku þátt í samnorrænu listverkefni á vegum Listasafns Reykjanesbæjar og tveggja annarra norrænna safna. Unnið var upp úr þjóðsagnaarfi landanna og liggja sögurnar frammi fyrir foreldra til að lesa fyrir börn sín um leið og verkin eru skoðuð.

Á bókasafninu verður dagskrá í boði tengd Skessudögum þótt lokað sé yfir helgina. Á föstudeginum 11. verður dótadagur á safninu. Auk þess verður sett upp sýning á leikföngum barna fyrr á tímum og rifjaðir upp skemmtilegir leikir með aðstoð bóka í eigu safnsins. Sömuleiðis verður athygli vakin á fyndnum norrænum bókum í tilefni norrænnar bókasafnsviku.

Fjörheimar, Hafnargötu 88 verða opnir á laugardeginum og þar mun unglingaráð stýra sígildum barnaleikjum. Auk þess verður opið í þythokkí, fótboltaspil, borðtennis og fleira. Kl. 15:00 verður boðið upp á glæsilegt dansatriði frá Bryn Ballett Akademíunni á milli leikja.

Innileikjagarðurinn á Ásbrú er á sínum stað og hefur nú opnað aftur eftir sumarfrí. Þar eru leiktæki fyrir yngstu kynslóðina og um helgina verða einnig teiknimyndir sýndar á breiðtjaldi. Heitt verður á könnunni fyrir foreldra þar sem gott verður að tylla sér niður á meðan börnin fá útrás fyrir leikgleðina.

Það er því ljóst að engum ætti að þurfa að leiðast á Skessudögum og vonandi að sem flestir bregði undir sig betri fætinum og líti við á hinum ýmsu stöðum.

Frekari upplýsingar á reykjanesbaer.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024