Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skessan í hellinum býður til Barnahátíðar
Mánudagur 6. maí 2013 kl. 09:46

Skessan í hellinum býður til Barnahátíðar

- í Reykjanesbæ dagana 8. - 12. maí.

Barnahátíð í Reykjanesbæ verður sett með formlegum hætti í 8. sinn miðvikudaginn 8. maí í Duushúsum þegar sýningin „Umhverfi okkar er ævintýri“ verður opnuð að viðstöddum elstu börnum allra tíu leikskólanna í bænum. Sýningin er hluti Listahátíðar barna sem er samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og allra leik- og grunnskólanna bæjarins. Leikskólabörnin hafa unnið með nærumhverfi sitt stóran hluta úr vetri og afraksturinn verður til sýnis fyrir gesti Barnahátíðar. Þessi árlega sýning leikskólanna hefur vakið mikla aðdáun og dregið að sér þúsundir gesta ár hvert.

Í framhaldi taka við viðburðir Barnahátíðar hver á fætur öðrum. Sama dag opnar grunnskólahluti Listahátíðar barna víðs vegar um bæinn undir yfirskriftinni „Listaverk í leiðinni.“ Grunnskólinn lætur ekki þar við sitja heldur býður upp á Hæfileikahátíð í Stapa þar sem sýnt verður úrval af frábærum árshátíðaratriðum krakkanna, auk atriða frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og dansskólunum. Þá verða hópar frá grunnskólunum og tónlistarskólanum á ferð vítt og breitt um bæinn og  bjóða upp á ýmis atriði bæjarbúum til skemmtunar.

Hápunkti nær Barnahátíðin laugardag og sunnudag þegar boðið verður upp á margs konar viðburði tileinkaða börnum og fjölskyldum þeirra. Á laugardeginum fer meginþungi dagskrárinnar fram á svæðinu við Víkingaheima. Þar hafa sýningar verið endurnýjaðar og þangað býðst börnum t.d. að mæta með bangsann sinn og útbúa á hann víkingaklæði. Landnámsdýragarðurinn verður opnaður og þar verður boðið upp á grillaðar pylsur. Leikfangamarkaður barnanna fer fram í tjaldi við Víkingaheima, þar sem börnum gefst kostur á að gerast kaupmenn part úr degi. Boðið verður upp á sirkussmiðju og sýningu, hestar verða teymdir undir börnum, glæný slökkviliðssýning er öllum opin og svona mætti áfram telja.

Á sunnudeginum fer megin dagskráin fram við Duushúsin, þar sem listahátíð barna er í fullum gangi. Skessan er í hátíðarskapi og býður upp á lummur í hellinum sínum. Henni hefur verið dálítið kalt í vor og því verður hægt að taka þátt í að prjóna á hana trefil auk þess sem Fjóla tröllastelpa vinkona hennar heilsar upp á börnin. Í Svarta pakkhúsinu verður boðið upp á mjög spennandi hljóðfærasmiðju fyrir alla fjölskylduna og á Keflavíkurtúni verða leiktæki og leikir í fullum gangi. Þá hljóðar veðurspáin upp á karamelluregn.

Það er því ljóst að yngsta kynslóðin ætti að geta fundið sitthvað við sitt hæfi og átt góða stund með fjölskyldu sinni á Barnahátíð í Reykjanesbæ.

Dagskrána í heild sinni, með tímasetningum, staðsetningum og nánari upplýsingum má nálgast á vefsíðunni barnahatid.is. með fyrirvara um breytingar t.d. vegna veðurs. Þess skal getið að frítt er á alla viðburði Barnahátíðar.

Reykjanesbær býður ykkur velkomin!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024