Skessa í Reykjanesbæ?
Íbúar í Reykjanesbæ hafa tekið eftir dularfullum tröllasporum í bænum undanfarna daga og leiða menn líkum að því að þar sé á ferð hin þjóðþekkta skessa sem sagt er frá í bókunum um Siggu og skessuna í fjallinu en hún hyggur nú á búferlaflutninga í Svartahelli við Grófarhöfn.
Fótspor skessunnar eru greinileg eins og sjá má á meðfylgjandi myndum en þær voru teknar austast í við manngerða fjallið Kamb þar sem er gott útsýni yfir bæinn.Talið er að skessan komi úr Reykjanesfólkvangi og sé nú að kanna aðstæður og huga að stöðu framkvæmda sem nú eru í fullum gangi en stefnt er að því að hellirinn verði tilbúinn á Ljósanótt, menningar-, og
fjölskylduhátíð Reyknesinga sem haldin verður dagana 4. – 7. September n.k.
Heyrst hefur að skessan eigi von á Jötnum, þursum og öðru skyldfólki af tröllakyni úr Eyjum sem munu aðstoða hana við flutningana á Ljósanótt og því má búast við aukinni umferð trölla á svæðinu.
Skessann er hænd að fólki og gerir ekki flugu mein. Það verður þó að umgangast hana með varúð en vegna stærðar hennar gæti hún hæglega stigið yfir bíla án þess sem verða þess vör. Stærð skessunnar mun þó ekki hafa áhrif á flugumferð á Keflavíkurflugvelli .
Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum verður fylgst náið með skessunni og fréttir fluttar af ferðum hennar verði vart við hana í byggð á næstunni.