Skemmtilegt Kanaútvarps-blik á Ásbrú
Það mátti heyra hlátrasköll og tekið undir í söng í gömlum þekktum lögum þegar „Með blik í auga, Keflavík og kanaútvarpið“ var frumsýnt í Andrews salnum á Ásbrú á miðvikudagskvöldið. Stemmningin var mikil og ljóst að áhorfendur voru að „fíla“ sig í nostalgíu Keflavíkurflugvallar.
Þetta er fjórða sýning „Með blik í auga“ og nú brá við aðeins annan tón, þ.e. aðstandendur settu upp góða hljómsveit sem var að mestu skipuð heimamönnum undir stjórn Arnórs Vilbergssonar en fengu fjóra stórsöngvara, alla landsþekkta, til að þenja raddir í frægum lögum. Hingað til hafa heimamenn séð um nær alla hluti, tónlist og söng. Og það var ekki að heyra annað á frumsýningunni en að vel hafi tekist til. Söngvararnir fjórir, þau Regína Ósk, Bjarni Ara, Matti Matt og Sverrir Bergmann fóru á kostum.
Lagavalið var mjög gott því tímaramminn spannandi nokkra áratugi Kanaútvarpsins. Allt meira og minna mjög þekkt lög og allir 40 ára og eldri voru vel með á nótunum. Þeir sem voru yngri voru líka sáttir því lang flestir hafa heyrt þessi lög sem nær öll urðu gríðarlega vinsæl á sínum tíma.
Sýningin byrjaði á Rolling Stones smellinum „Honkey tonk woman“ og það söng Sverir Bergmann, kannski minnst þekkti söngvarinn úr hópnum, en heyra mátti eftir sýninguna að hann hafi hrifið marga og jafnvel stolið senunni. Næstu tvö lög voru engin önnur en „Let it be“ með Bítlunum og „Something stupid“ með Nancy og Frank Sinatra. Þar fóru Bjarni Ara og Regína á kostum og Bjarni söng líka frábærlega í „Bridge over troubled water“ eftir Simon og Garfunkel. Það vita allir hvað Bjarni getur. Þrettán laga syrpa fyrir hlé endaði á lagi eftir Arethu Franklín sem Regína söng mjög vel. Hún er frábær söngkona. Kristján Jóhannsson fór mikinn í textaflutningi á milli laga. Kappinn gerði það mjög vel og blandaði gríni inn í sem féll í góðan jarðveg. Flutningurinn fyrir hlé var mun lengri en seinni parturinn sem var þó ekki síðri. Fræg lög ómuðu um salinn og fólk dillaði sér og margir tóku undir. Mikil viðbrögð voru þó þegar hópurinn tók „Hotel California“ með Eagles. Matti Matt var flottur í söngnum en gítarleikararnir Vignir Bergmann og Sigurgeir Sigmundsson fóru hreinlega hamförum í gítarleiknum. Salurinn stóð á fætur eftir lagið og klappaði þeim lof í lófa. Algerlega frábært. Hópurinn endaði á diskólaginu „Tragedy“ með Bee Gees sem var virkilega skemmtilegt. Þetta er þó nokkuð mikið af lýsingarorðum en þannig var upplifun mín og mjög margra á tónleikunum.
Það er gaman til þess að vita að hópur fólks af svæðinu skuli hafa nennu og metnað til að standa í svona framtaki. Það er ljóst að þemað, Kanaútvarpið á Vellinum, kemur við marga enda unnu mjög margir Suðurnesjamenn einhvern tíma á Keflavíkurflugvelli og nær allir hlustuðu á American Forces Radio, AM 1485 Keflavik, í áratugi. Sú hlustun minnkaði ekki fyrr en Rás 2 varð að veruleika árið 1983 og með Bylgjunni þremur árum síðar. Kanaútvarpið hafði mikil áhrif í Keflavík og nágrenni, og er ein stærsta ástæða þess að Keflavík fékk viðurnefnið Bítlabærinn. Það sögðu Hljómarnir alla vega einhvern tíma.
Þeir Kristján Jóhannsson, Guðbrandur Einarsson og Arnór Vilbergsson með einvala liði tónlistarfólks sem og margra annarra sem gera margt baksviðs og fleira, eiga þakkir skildar fyrir frábæra sýningu. Þessi sýning er ekki bara fyrir Kanaútvarpshlustendur heldur alla sem kunna að njóta góðra og þekktra laga sem ómuðu á öldum ljósvakans hér áður fyrr og gera enn.
„Well done folks“, hefði líklegast heyrst í Kanaútvarpinu.
Páll Ketilsson.