Skemmtilegt haust í vændum í Púlsinum
Nú fara námskeið í Púlsinum að hefjast á ný og margt spennandi bíður þátttakenda.
Marta Eiríksdóttir, viðburðastjórnandi í Púlsinum, opnar nýjan glæsilegan sal í ágúst fyrir starfsemina á Listatorgi í Sandgerðisbæ en þar verða í boði úrval uppbyggjandi námskeiða fyrir líkama og sál.
Fyrst er að nefna vinsælu jóganámskeiðin og nú verða hressandi morguntímar einnig í boði, fyrir þá sem vilja byrja daginn á því að liðka sig og koma sér í jákvæða gírinn. Danstímarnir eru fjörugir og fjölbreyttir, hvort sem fólk vill stunda dans vikulega eða koma á helgarnámskeið. Dansjóga sem er skemmtileg blanda af dansi og jógaæfingum er mjög vinsælt. Orkudans er fyrir þá sem elska að dansa meira en sumir blanda saman þessum tveimur tímum, dansjóga / orkudansi og koma sér þannig í frábært form. Þolið eykst og gleðin til muna í gegnum dans.
Jákvæð hugþjálfun er áhrifaríkt hugræktarnámskeið sem þátttakendur hafa lofað og einnig létt ræðumennska Út úr skelinni, sem er fyrir þá sem vilja losa sig við feimni eða efla munnlega tjáningu og þjálfast í að koma fram. Bæði námskeiðin eru sjálfstyrkingarnámskeið.
Matreiðslunámskeið í orkuríkri fæðu verður tvö kvöld en þessi fræðsla sló í gegn í heilsudeildinni í Samkaup Njarðvík. Nú verður farið skrefinu lengra með fræðsluna og þátttakendum kennt að elda og velja hollustu í eldhúsið.
Gleðiþjálfun fyrir hópa, hláturjóga og margt margt fleira verður í boði hjá Púlsinum í haust, best er að kíkja á heimasíðuna www.pulsinn.is og kynna sér úrvalið. Skráning er hafin á heimasíðunni og komin í fullan gang, það ætla greinilega margir að nýta sér haustið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.