Skemmtilegt framtíðarverkefni
Fyrstu þríburarnir á Suðurnesjum í tæp tuttugu ár. Litla fjölskylda Hönnu Bjarkar Hilmarsdóttur og Arnars Long tvöfaldaðist eftir þríburafæðingu 1. apríl 2021.
„Það gengur bara vel. Verkefnið er mjög skemmtilegt og á eftir að verða þannig í framtíðinni,“ segja þau Hanna Björk Hilmarsdóttir og Arnar Long Jóhannsson en 1. apríl komu þríburar í heiminn eftir 33 vikna og einn dag í meðgöngu hjá Hönnu Björk.
Það lá vel á unga parinu úr Reykjanesbæ þegar Víkurfréttir forvitnuðust um stöðu mála í stóru fjölskyldunni sem tvöfaldaðist eftir að þrírburarnir komu í heiminn. „Það verður fjör á heimilinu, mikið að gera en við erum búin að kaupa okkur stærri bíl og komin í stærra húsnæði,“ sögðu þau í stuttu spjalli við VF.
Þríburar Hönnu og Arnars líta dagsins ljós í fyrsta sinn. Glæsilegir.
Þrír heilbrigðir einstaklingar komu í heiminn 1. apríl og þetta var svo sannarlega ekkert gabb. Börnin voru tekin með keisaraskurði eins og algengt er með fjölburafæðingar en þeim fylgir alltaf meiri áhætta. Stúlka kom fyrst kl. 17:59 og var 2.200 gr. Síðan komu drengirnir kl. 18:00 og 18:01, 2.310 gr. og 1.924 gr. Þeir hleyptu auðvitað dömunni í heiminn á undan. Þeim heilsast öllum vel en hafa verið á vökudeild og verða þar næstu vikur. Fjölskyldan gistir á sjúkrahóteli Landspítalans.
Hanna og Arnar eiga fyrir rúmlega eins árs gamlan dreng, Ingiberg, en hann hefur verið hjá ömmu og afa, Guðnýju Magnúsdóttur og Hilmari Björgvinssyni. Ungu hjónin segja að það hafi verið sjokk þegar þau fengu tíðindin í upphafi meðgöngunnar. Hanna segist hafa farið að gráta en Arnar hafi farið að hlæja. „Það er mikið um tvíbura í minni fjölskyldu þannig að við höfðum grínast með það nokkuð að þetta væru örugglega tvíburar og við töluðum þannig. Svo sá ég tvo sekki í sónarnir og spurði lækninn hvort þetta væru tvíburar en fékk svar um að þetta væru þríburar,“ segir unga mamman og bætir við að meðgangan hafi gengið vonum framar. Hanna Björg á m.a. tvíburasystkin.
Hanna Björk heilsar upp á einn þríburann.
Þríburarnir saman í rúmi í fyrsta sinn.
„Við erum heldur betur spennt fyrir þessu nýja kafla í okkar lífi og að takast á við þetta risastóra verkefni, hlökkum til að komast heim til stóra bróður og sýna honum alla nýju fjölskyldumeðlimina. Ótrúlega spennandi tímar framundan og við alveg í skýjunum,“ sagði pabbinn. Hanna Björk var hins vegar fljót til svars þegar hún var spurð hvort þau myndu hugsa um að eignast fleiri börn. „Nei, þetta er orðið fínt.“
Þríburar Hönnu og Arnars eru þeir fyrstu sem fæðast hér á landi síðan árið 2017. Á Suðurnesjum hafa alla vega tvennir þríburar fæðst frá árinu 1999, síðast árið 2002 í Grindavík.