Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skemmtilegt að fá að vera hluti af ferðamannabransanum
Sunnudagur 30. apríl 2023 kl. 06:23

Skemmtilegt að fá að vera hluti af ferðamannabransanum

Nafn: Steinunn Ósk Valsdóttir
Aldur: 31
Menntun: Förðunar-fræðingur, stílisti, BA í miðlun og almanna-tengslum og master í markaðsfræði

Steinunn Ósk Valsdóttir er FKA kona mánaðarins. Hún starfar hjá Nostra ræstingum og er þriggja barna móðir.
Steinunn ásamt börnunum sínum.

Við hvað starfar þú og hvar? Ég er sölu og markaðsstjóri hjá Nostra ræstingum í Reykjavík.

Hver eru helstu verkefni? Mín helstu verkefni ligga í því að ná til hótela, gistiheimila og Airbnb og selja þeim þjónustu. Ég sé einnig um vefsíðu og samfélagsmiðla fyrirtækisins. Við erum einmitt að herja á Suðurnesin um þessar mundir og reyna að stækka viðskiptahópinn á því frábæra svæði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Er eitthvað sem gerir verkefnið eða fyrirtækið einstakt, forvitnilegt? Já, við erum að bjóða upp á svo margt. Sérverkefni á borð við teppahreinsun, húsgagnahreinsun og dýnuhreinsun. Ég er búin að læra það að ending þessara hluta fer mjög mikið eftir því hvort við pössum okkur að þrífa þá reglulega. Það er bæði hagkvæmt og umhverfisvænt. Svo er auðvitað skemmtilegt að fá að vera hluti af ferðamannabransanum varðandi þjónustu fyrir þann iðnað sem fer alltaf stækkandi.

Eitthvað áhugavert sem þú ert að gera? Ég er að vinna í ótrúlega skemmtilegum verkefnum sem ég get því miður ekki uppljóstrað strax. Ég er mjög drífandi kona sem fæ fullt af flottum hugmyndum og er alltaf að vinna að því að koma þeim í gang.

Hvað hefur þú verið að gera? Ég hef unnið á samfélagsmiðlum í um sjö, átta ár. Mér finnst þeir skemmtilegir og markaðssetning á samfélagsmiðlum er það skemmtilegasta sem ég geri í vinnunni. Ég hef unnið hjá einu flottasta fyrirtæki á Suðurnesjum, GeoSilica, og vann þar í rúm þrjú ár. Þar lærði ég ótrúlega mikið sem ég mun taka með mér út í lífið.

Hvað ertu að gera núna? Ég er þriggja barna móðir og það er það sem gefur mér drifkraftinn í það sem ég geri. Það skiptir mig gríðarlegu máli að vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín. Ég auðvitað sinni vinnu og hugsa um heilsuna, það er það helsta sem ég geri núna.

Framtíðarplön (svolítið sagan þín)? Eins og kom fram hér að ofan þá hef ég menntað mig mikið og sankað að mér alls kyns reynslu í gegnum árin. Mér finnst tuttugu til þrjátíu ára aldurinn hafa verið svona reynslutími fyrir mig og sú reynsla sem ég öðlaðist ætla ég að nýta mér fyrir framtíðina. Ég veit mér var ætlað að gera eitthvað skapandi sem tengist mínum áhugamálum og það er þangað sem ég stefni. Ég veit ekki enn hvað ég verð þegar ég verð stór. Það kemur í ljós en tækifærin sem koma leiða mann alltaf á réttan stað.

Hversu lengi hefur þú búið á Suðurnesjum? Ég fæddist í Keflavík en sem barn flakkaði ég um með fjölskyldu minni og bjó t.d. í Danmörku, Sauðárkróki og Borgarnesi. Ég flutti svo aftur til Reykjanesbæjar þegar ég var að byrja í menntaskóla, þá sextán ára gömul og hef verið þar síðan.

Hverjir eru kostir þess að búa á Suðurnesjum? Við erum rosalega nálægt flugvellinum sem er rosalegur kostur. Suðurnesin eru róleg og góð fyrir fjölskyldufólk og svo er mikil íþrótta- og heilsumenning sem ég heillast mikið af. Maður er fimm mínútur að fara allt innanbæjar, það er rosalegur kostur.

Hvernig líst þér á nýja félagið okkar, FKA Suðurnes? Mér finnst þetta í alla staði frábært framtak fyrir allar konur á svæðinu. Tengslanet og félagsskapur með svona flottum konum getur gefið manni ótrúlega mikið. Innblástur, hugmyndir og góðar vinkonur. Þarna eru fullt af flottum konum sem maður getur ráðfært sig við, það er mjög dýrmætt.

Hvað varð til þess að þú skráðir þig í FKA? Ég var að vinna hjá Fidu, stofnanda GeoSilica, sem er formaður FKA Suðurnes. Hún kynnti mig fyrir félaginu og ég vissi að ég yrði að fá að vera með.

Hvað finnst þér FKA gera fyrir þig? Mér finnst viðburðirnir gefa mér rosalegan innblástur. Ég fæ rosalegan drifkraft af því að sjá svona flottar konur í atvinnulífinu og ef þær geta þetta, þá hlýt ég að geta þetta líka.

Heilræði/ráð til kvenna á Suðurnesjum? Sá félagsskapur sem þú velur þér getur haft mikil áhrif á þig sem manneskju. Veldu fólk sem er gefandi, veitir þér innblástur og umkringdu þig þannig fólki. FKA er frábær leið til þess.

Steinunn Ósk vann í þrjú ár hjá GeoSilica og segir það hafa verið viðburðaríkan tíma.

Markmið með verkefninu er að vekja athygli á FKA konum í atvinnulífinu á Suðurnesjum, fyrirtækjunum þeirra eða verkefnunum sem þær sinna og sýna hversu megnugar og magnaðar þær eru.