Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skemmtilegir skólafélagar og flottir kennarar
Laugardagur 13. ágúst 2016 kl. 06:00

Skemmtilegir skólafélagar og flottir kennarar

Eldri FS-ingar í spjalli - 40 ára afmæli FS

Í haust mun Fjölbrautaskóli Suðurnesja fagna 40 ára afmæli sínu og til stendur að halda uppá daginn 24. september næstkomandi. Fjölbrautaskóli Suðurnesja, eða FS, hefur í gegnum árin boðið uppá fjölbreyttar námslínur og því alið af sér einstaklinga sem sinna hinum ýmsu störfum atvinnulífsins, bæði hérlendis og erlendis. Því er vel við hæfi að leita uppi gamla FS-inga og forvitnast um hvað á daga þeirra hefur drifið. Sumir þeirra luku stúdensprófi frá skólanum, aðrir luku iðnmenntun en enn aðrir komu við í skemmri tíma. Fram að afmælinu ætlum við að leita uppi gamla FS-inga. Fyrstur ríður á vaðið Hrannar Hólm sem var formaður NFS skólaárið 1981-82.

Nafn og hvenær viðkomandi var við nám í FS
Hrannar Hólm, nemandi frá 1979 til 1982, formaður NFS 1981-82, stúdent 1982


Hvað hefurðu verið að gera síðan þú útskrifaðist úr FS?
Ansi margt, enda langt um liðið. Lauk meistaranámi í íþróttafræðum frá Háskólanum í Tübingen í Þýskalandi 1992 og MBA frá Cranfield háskólanum í Englandi 1999. Kenndi 2-3 ár í FS, en hef mest unnið við körfubolta annars vegar (verið þjálfari karla og kvenna og landsliða í Þýskalandi, Íslandi og Danmörku) og fjármálaráðgjöf hins vegar, fyrst hjá KMPG og síðan verið lengi hjá Capacent, bæði á Íslandi og í Danmörku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig fannst þér FS búa þig undir það nám sem þú fórst í?
Hóf nám í líffræði í Háskóla Íslands og man að ég kunni miklu meira í efnafræði en flestir hinir. Það var ágætt. Annars velti ég því ekki mikið fyrir mér, var prýðilega undirbúinn og ef eitthvað vantaði, þá var það mér sjálfum að kenna.

Hvernig skóli er FS í þínum augum?
Það eru yfir 30 ár frá því ég útskrifaðist úr FS og um 20 ár frá því ég kenndi í FS. Því ekki alveg viss hvernig skólinn er í dag. En minnist þess að mér fannst kostur við FS að allir eru velkomnir og skólinn reynir að gera sitt besta fyrir alla.

Viltu deila með okkur eftirminnilegum minningum úr gamla skólanum þínum?
Skólakeppnir við Selfoss og Akranes voru samtímis stórhættulegar og skemmtilegar. Óvæntar uppákomur á skólaböllum voru alltaf athyglisverðar. Skemmtilegir skólafélagar og flottir kennarar.

Hvað stendur upp úr þegar þú horfir til baka?
Klárlega vinskapurinn sem varð til þar. Mörg okkar sem voru saman í námi eru enn bestu vinir og halda hópinn enn þann dag í dag.

Hver var eftirminnilegasti kennarinn?
Margir góðir, gæti hæglega nefnt 20 sem ég man vel eftir, þó ég muni kannski ekki nöfnin upp á 10. Þeir sem voru spes eru mest eftirminnilegir, eins og t.d. Jón Arnar líffræðsnillingur, Gísli heitinn Sigurkarls ofurpælari og Maja Löbell sem henti í mig krít þegar ég dottaði í tíma hjá henni. Gísli Torfa og Mattías Viðar voru toppmenn sem því miður eru fallnir frá. Svo verður náttúrulega að nefna Ægi, Móa og Guðna Kjartans, held þeir séu enn að kenna. Eðalkallar, allt saman.

Uppáhalds náttúruperla á Suðurnesjum?
Annars vegar Reykjanesið og hins vegar Leiran, þ.e.a.s. golfvöllurinn.