Skemmtilegir 25 ára afmælistónleikar Léttsveitar TR
Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar lék á alls oddi á 25 ára afmælistónleikum hennar í Stapa í gærkvöldi. Sveitin flutti fjölda laga frá ferlinum, bæði ný og gömul.
Núverandi og margir fyrrverandi liðsmenn sveitarinnar komu fram, fyrst flutti sveitin nokkur lög eins og hún er skipuð í dag, því næst með eldri félögum en í lokin sameinaðist allur hópurinn undir stjórn „mömmu“ sveitarinnar, Karenar Sturlaugsson.
Nokkrir kunnir kappar hafa stígið sín fyrstu skref í léttsveitinni, þar á meðal Valdarnir úr hljómsveitinni Valdimar, þeir Valdimar Guðmundsson og Þorvaldur Halldórsson.
Stapinn var þétt setinn og tónleikagestir kunnu vel að meta stemmningu kvöldsins. Karen lofaði því eiginlega að sveitin kæmi saman aftur með gömlu liðsmönnunum líka sem margir eru hættir hljóðfæraleik í dag. Vonandi stendur hún við það loforð því tónleikarnir voru mjög skemmtilegir.
Sveitin með gömlum og núverandi liðsmönnum á sviðinu í Stapa en á myndinni fyrir neðan er sveitin eins og hún er skipuð í dag. VF-myndir/pket.