Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 11. ágúst 2003 kl. 18:19

Skemmtileg uppfærsla Sumarleikhóps Vinnuskólans

Föstudagskvöldið 8. ágúst sl. þáði undirritaður boð Fjölskyldu og félagsþjónustu og Íþrótta og tómstundaskrifstofu Reykjanesbæjar og sá uppfærslu leikhóps Vinnuskóla Reykjanesbæjar á einþáttungi Jökuls Jakobssonar ,,Kalda borðið” í Frumleikhúsinu. Er skemmst frá að segja að undirritaður skemmti sér konunglega og var frábært að sjá hversu vel leikendur stóðu sig. Þór Jóhannesson, sem setti upp sýninguna og annaðist leikstjórn og leikgerð, á hrós skilið fyrir góða vinnu og vil ég óska honum og leikurunum öllum, innilega til hamingju með árangurinn. Leikararnir, sem í leikskrá eru allir sagðir á aldrinum 14-16 ára, höfðu einungis 4 vikur til þess að setja upp sýninguna. Sá tími er ekki langur í leikhúsi og ótrúlegt hversu góðum tökum þau hafa náð á viðfangsefninu á svo stuttum tíma. Þessi tími hlýtur að hafa verið þeim mjög lærdómsríkur og álag mikið en þau hafa svo sannarlega uppskorið árangur erfiðisins. Sú nýbreytni Vinnuskólans, að bjóða upp á leiklist er mikilvægur þáttur í þeim tilgangi að gefa unglingum kost á að kynnast þvi að það er margt fleira vinna en garð- og jarðvinna.

Suma leikarana hef ég áður séð á sviði Frumleikhússins og þá helst á vettvangi Unglingadeildar Leikfélags Keflavíkur. Þau sem báru mestan þungan af sýningunni voru Freyr Sigurðsson og Alexandra Ósk Sigurðardóttir. Þau skiluðu bæði sínum hlutverkum af starkri prýði. Alexandra er ein af þessum sem ég hef áður séð á sviði og skilaði reynsla hennar sér m.a. í sérstaklega skýrum framburði texta og góðum leik. Annar vanur leikari var Dóra Lilja Óskarsdóttir. Kristín Lega Henrýsdóttir var sannfærandi í sínum atriðum í samtölum hennar og Freys undir stjörnubjörtum næturhimni út á svölum. Þór leikstjóri stökk inn í eitt lykilhlutverkið á síðustu stundu þar sem einn leikaranna forfallaðist. Þór er vanur áhugaleikari og var frábær.

Nú veit ég ekki hvort ætlunin er að hafa fleiri sýningar. Ef svo er hvet ég alla til þess að fara og sjá einþáttunginn. Að lokum vil ég ítreka hamingjuóskir mínar til aðstandenda sýningarinnar og foreldrar og aðstandendur leikaranna mega svo sannarlega vera stolt af unglingunum sínum.

Kjartan Már Kjartansson
bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024