Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Skemmtileg námskeið hjá MSS
Mánudagur 9. febrúar 2004 kl. 16:03

Skemmtileg námskeið hjá MSS

Námskeiðahald hjá Miðstöð símenntunar er komið á fullt skrið. Þátttaka hefur verið góð það sem af er og eru Suðurnesjamenn fróðleiksfúsir. Í næstu viku byrja námskeið í vélgæslu, ensku, spænsku, einelti á vinnustað, espressó, sölumennsku, sjálfsstyrkingu, listin að vera dama, Hvað ertu tónlist og leiðsögunám. Á laugardaginn mun ráðgjafi vera hjá MSS og geta þeir sem telja sig eiga við lestrarerfiðleika að stríða fengið greiningu og ráðgjöf. Þátttakendur þurfa að skrá sig hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.

Listin að vera dama
Helga Braga verður með námskeiðið “Listin að vera dama” í Reykjanesbæ þann 19. febrúar. Á námskeiðinu mun Helga fara á kostum við að kenna listina að vera dama.
Helga segir að námskeiðið sé “kokteill” af gríni og gleði þar sem gert sé grín af öllum þeim mistökum sem dömur geta gert, ásamt “alvöru” ráðleggingum frá ýmsum aðilum s.s. leikkonum, “glamúr” gellum, samkynhneigðum vinum sínum og dömum víðsvegar úr heimi. Jafnframt sé ákveðin sjálfsstyrking falin í námskeiðinu. Það er ekki verið að segja konum hvernig þær eigi að vera heldur er verið að styrkja ákveðinn þátt sem kannski hefur verið í dvala. Námskeiðið er einstaklega létt og hlutirnir settir upp með bröndurum enda hefur það sannast að hláturinn sé eitt besta meðal sem til sé. Konur á öllum aldri hafa sótt þessi námskeið og frá hinum margvíslegum starfsstéttum og haft gagn og gaman af segir Helga að lokum.

Hvað er tónlist?
Jónas Ingimundarson verður með sitt margrómaða prógramm sem hann nefnir “Hvað ertu tónlist?” í Listasafni Reykjanesbæjar þann 19. febrúar nk.
Jónas segir nokkrum erfiðleikum bundið að lýsa uppákomunni. “Eigum við ekki að segja að þetta byggist á spjalli og spkúlasjónum um tónlist ásamt þeim verkum sem ég spila. Ég freistast til að velta hugtakinu fyrir mér eins og kristalskúlu milli handanna og skoða það sem snýr upp hverju sinni.”
Jónas segir tilganginn ekki þann að fólk heyri músíkina eins og hann heyri hana heldur að kynna hvernig hægt er að nálgast tónlist á ýmsa vegu.
“Við heyrum svo oft af því hvað Mozart dó ungur og hversu mörg börn Bach átti eða af heyrnarleysi Beethoven en fyrir mér er það bara heilsufræði. Ég reyni að beina athyglinni að tónlistinni sjálfri. Auðvitað er hægt að nálgast tónlist út frá meðvitaðri greiningu á formi og strúktúr en kannski erum við að tala hér um aðra nálgun þar sem tónlistin talar fyrir sig sjálf.”
Jónast gerir ráð fyrir að vera með sýnishorn af mörgum verkum. “Ég sit náttúrlega við mitt píanó og hef hvorki sinfóníuhljómsveit eða rokkband mér til fulltingis. Ætli ég tíni ekki það úr handraðanum sem mér er hugleikið og spila það sem mér finnst gaman að spila,” segir Jónas Ingimundarson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024